Lífsferilsgreining Vistferilsgreining LCA
Grein - 20.05.2021

Hringrás byggingariðnaðarins

Byggingariðnaðurinn er ábyrgur fyrir helmingi af allri auðlindanotkun heimsins og 40% af úrgangsmyndun í heiminu. Hvernig má draga úr úrganginum? Sandra Rán Ásgrímsdóttir, sjálfbærniverkfræðingur hjá Mannviti, fæst við að svara þessum spurningum í ólíkum verkefnum.

„Þegar leggja á veg, reisa brú eða byggja hús þarf töluverðan fjölda náttúruauðlinda. Sumar af þeim auðlindum sem notaðar eru koma beint úr náttúrunni, eins og möl eða jarðvegur sem notað er í undirlag og steypu sem er að megninu til sandur. Aðrar auðlindir fara í gegnum lengra ferli og verða að lögnum, gluggum, stálbitum eða öðrum nauðsynlegum byggingarefnum. Hvað verður um allar þessar auðlindir þegar líftíma mannvirkis er lokið og það hefur uppfyllt hlutverk sitt er spurning sem vert er að spyrja sig. Byggingariðnaðurinn er ábyrgur fyrir helmingi af allri auðlindanotkun heimsins og 40% af úrgangsmyndun í heiminum [1]."

Hringrásarhagkerfi lykillinn

Náttúruauðlindir jarðarinnar eru ekki allar endurnýjanlegar og þær sem endurnýjast þurfa til þess tíma. Því er mikilvægt að við reynum að endurvinna og endurnýta sem mest af þeim auðlindum sem við nýtum. Á meðan að framkvæmd stendur er um 10-15% af byggingarefnum sóað og við niðurrif byggingar getur reynst erfitt að aðskilja efni og koma þeim í réttan endurvinnslufarveg svo stór hluti endar í urðun eða niðurvinnslu (e. down cycling). Með innleiðingu hringrásarhagkerfis í byggingariðnað er hægt að draga úr sóun náttúruauðlinda og stuðla að betri nýtingu.

 

Hvernig tæklum við vandann?

Hönnuðir mannvirkja gegna lykilhlutverki þegar kemur að hringrásarhagkerfinu en huga þarf að því strax á hönnunarstigi að auðvelt sé að breyta mannvirki og aðlaga að breyttum þörfum. Það þarf að gæta að því að auðvelt sé að taka mannvirki í sundur þegar líftíma er lokið, hægt sé að skipta út byggingarhlutum sé þess þörf og að ekki verði sóun á byggingarefni á framkvæmdartíma svo eitthvað sé nefnt. Þá þurfa framkvæmdaraðilar og eigendur mannvirkja einnig að vera meðvitaðir um uppruna, nýtingu og förgun byggingarefna á þeirra vegum. Eftirlitsaðilar og stjórnvöld hafa stigið fyrsta skrefið með útgáfu leiðbeininga um stjórnun byggingarúrgangs í samstarfi við Grænni Byggð og frumvarpi um flokkun á byggingar- og niðurrifsúrgangi á byggingarsvæðum.

Til þess að ná raunverulegum árangri þarf samstillt átak allra hluteigandi aðila. Ljóst er að það felast mörg tækifæri og margar áskoranir í bættri auðlindanýtingu innan byggingariðnaðarins. Með aukinni vitundavakningu og samstarfi er þó allt mögulegt. Í draumaheimi eru öll mannvirki endurnýtt og lokuð hringrás hefur myndast innan byggingariðnaðarins þar sem ekkert er urðað.

[1] Hringrásarhagkerfið og byggingariðnaðurinn