Hvatningarvidurkenning
Frétt - 31.03.2023

Hvatningarviðurkenningar til fjögurra verkefna

Hvatningarviðurkenningar voru veittar á vel sóttu Nýsköpunarmóti Álklasans 2023, sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík á þriðjudag. Nýsköpunarmótið er haldið árlega til að fjalla um það nýjasta í rannsóknum og þróun á vettvangi áliðnaðar. Á meðal umfjöllunarefna voru rannsóknir á álrafhlöðum, svefnrannsóknir á vaktastarfsfólki og nýjungar í endurvinnslu á áli og úrgangsefnum í ál- og kísiliðnaði. Að Nýsköpunarmótinu standa Álklasinn, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Tæknisetur, Samál og Samtök iðnaðarins.

Hefð er fyrir því að veita nemendum hvatningarviðurkenningar fyrir verkefni sem hafa tengingu við Álklasann, en Álklasinn heldur einnig úti hugmyndagátt þar sem nemendur geta fengið hugmyndir að verkefnum og unnið þau með fyrirtækjum í klasanum. 

Fjögur verkefni fengu styrki í ár:

- Arnar Guðnason fékk viðurkenningu fyrir meistaraverkefni sitt við Háskóla Íslands, sem ber titilinn „Digital Transformation in the Aluminum Industry – from an Innovation Ecosystem perspective“, en þar rannsakaði hann hvernig lykilstarfshópar í áliðnaði geta haft áhrif á framvindu nýsköpunar.

- Daníel Þór Gunnarsson, meistaranemi við Háskólann í Reykjavík fékk viðurkenningu fyrir rannsóknarverkefni sitt sem lýtur að framleiðslu á áli með eðalskautum, en það er ein af þeim leiðum sem eru til skoðunar til að gera áliðnaðinn kolefnishlutlausan. Yfirskrift verkefnisins er „Bestun á rekstrarparametrum í eðalskautakerjum fyrir álframleiðslu“.

- Hákon Valur Haraldsson, doktorsnemi við Háskólann í Reykjavík fékk viðurkenningu fyrir verkefni sitt „MHD hermun á ljósboga í kísilframleiðsluferli“, en hann vinnur að hönnun forrits til þess að spá fyrir um hegðun ljósboga í kísilframleiðsluofnum og nýta það til að minnka kolefnisspor framleiðslunnar.

- Júlía Huang og Heiðar Snær Ásgeirsson, B.Sc. nemar við Háskóla Íslands fengu viðurkenningu fyrir verkefni sitt „Nýting úrgangsefna sem afoxara í kísiljárnframleiðslu“ en verkefni þeirra gekk út á þróun á kögglunartækni með áherslu á að endurnýta kolaryk íslenskra álvera, kerbrot og plastúrgang, yfir í afoxara fyrir kísilmálmiðnað.

Styrktaraðilar hvatningarviðurkenninganna eru Alcoa Fjarðaál, DTE, Efla, Landsbankinn, Launafl, Mannvit, Norðurál og Rio Tinto á Íslandi.

Á mynd: Guðbjörg Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Tækniseturs, Gaukur Garðarsson framkvæmdastjóri viðhaldssviðs Rio Tinto á Íslandi, Hafsteinn Þór Pétursson hjá Mannvit, Karl Matthíasson, stofnandi og framkvæmdastjóri DTE, Júlía Huang, Daníel Þór Gunnarsson, Arnar Guðnason, Hákon Valur Haraldsson, Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingastjóri Alcoa Fjarðaáls, Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, Finnur Marínó Flosason, sérfræðingur hjá Norðuráli og Dagur Ingi Ólafsson, klasastjóri Álklasans.