Kynningarviðtal_innivist.JPG
Frétt - 26.05.2017

Innivist er margþætt

Þann 25. maí birtist viðtal við sérfræðinga frá Mannviti í sérblaði Fréttablaðsins um meindýr og myglusveppi. Umfjöllunin snéri að því hvernig má koma í veg fyrir myglu, þjónustu Mannvits við meðhöndlun mygluvandamála og hvernig má stuðla að bættri innivist. Viðmælendurnir voru Kristján Guðlaugsson, byggingaverkfræðingur hjá Mannviti og sérfræðingur í meðhöndlun myglusveppa ásamt Ölmu Dagbjörtu Ívarsdóttur byggingaverkfræðing og sérfræðing í sjálfbærri byggingahönnun:

Mannvit veitir ráðgjöf á sviði mygluvandamála og bættrar innivistar hjá fyrirtækjum og stofnunum.

Ending og umfang viðhalds húsnæðis hafa alla tíð verið mikilvægir þættir húseigenda, en í seinni tíð hefur innivist og áhrif húsnæðis á notendur þeirra verið vaxandi þáttur og ekki að ástæðulausu. „Hjá Mannviti lítum við á mygluvandamál sem hluta af loftgæðum innivistar, hún uppgötvast t.d. oft vegna ólyktar,“ segir Kristján Guðlaugsson, verkfræðingur hjá Mannviti. „Mygla er sjaldan ein á ferð og einn mætur fyrirlesari sagði að líta mætti á mygluna sem sjáanlega merkið um að aðstæður séu ekki eins og við viljum hafa þær.“

Áhrif raka

„Með mikilli einföldun má segja að forsenda myglu sé raki. Ef allt er þurrt myglar ekkert. Það er mjög mikilvægt að fylgjast með raka í húsnæði, á hvaða formi sem hann kann að vera. Allir vita að vatn má ekki flæða um allt, en færri vita að þó rakinn sé loftraki á ósýnilegu gufuformi getur mygla farið af stað í byggingarefnum,“ segir Kristján.

Loftun húsnæðis mikilvæg

„Gæði inniloftsins eru gríðarlega mikilvæg og hafa áhrif á heilsu okkar og velferð. Til að viðhalda gæðum innilofts er ekki hægt að gera of mikið úr mikilvægi þess að lofta húsnæði. Æskilegt er að  loftræsta vel, með notkun vélrænnar og/eða náttúrulegrar loftræstingar. Með loftun bætum við meðal annars andrúmsloft, minnkum loftraka og mengun frá byggingaefnum, myglu og fleiru,“ segir Alma Dagbjört Ívarsdóttir, sérfræðingur á sviði innivistar og hönnunar sjálfbærra bygginga.

Viðbrögð og aðgerðir

„Þegar fyrirtæki eða stofnanir leita til okkar byrjum við á því að spyrja notendur um líðan í húsnæðinu,  hversu duglegt fólk er að lofta og fleira í þeim dúr,“ segir Kristján.“Síðan eru mælitæki notuð til að leita að raka og annarri mengun, Þá eru niðurstöðurnar greindar og lagt faglegt mat á uppruna vandans. Lagðar eru fram tillögur að lagfæringum á húsnæðinu sem taka mið af notkun húsnæðisins. Þær taka bæði til hreinsunar og uppbyggingar skemmds efnis, en einnig getur til dæmis þurft að setja upp lágmarks loftræstingu til þess að tryggja loftun húsnæðisins.“ Þau Kristján og Alma segja líklega aldrei hægt að fullyrða að húsnæði sé alveg laust við myglu. „Það er ljóst að fyrir ákveðinn hluta fólks er mygla mikið vandamál og þess vegna leggjum við til að eftir að húsnæði hefur verið tekið aftur í notkun sé reglulega fylgst með líðan notendanna. Verði einhvers óeðlilegs vart sé brugðist við með viðeigandi ráðstöfunum.“