Innivist viðtal - Mannvit.is
Frétt - 14.03.2018

Innivist; Hvernig líður þér?

Í nýjasta blaði Sóknarfæris var viðtal við Ölmu Dagbjörtu Ívarsdóttir og Kristján Guðlaugsson, sérfræðing í innivist. Þar segja þau frá hvað er átt við með innivist og ýmsum leiðum til að bæta innivistina á heimilum og vinnstöðum til þess að bæta líðan fólks. Mannvit veitir einmitt ráðgjöf á þessu sviði. Hér er viðtalið eins og það kemur fyrir í blaðinu: 

Mannvit spyr: Hvernig hefur þú það?

Orðið „innivist“ er notað yfir upplifun fólks í húsnæði og áhrif húsnæðis á þá sem í því eru og þess vegna hefur slæma innivist oft borið á góma í mygluumræðu síðustu ára. Líklega má fullyrða að enn hafi hin fullkomna bygging ekki verið reist, allar byggingar hafa einhverja galla, en jafnvel þó okkur tækist að reisa hið fullkomna hús, myndi það þarfnast viðhalds innan fárra ára. Ending og viðhald eru lykilatriði þegar kemur gæðum innivistar, því skemmdir í húsnæði hafa oft mikil áhrif á upplifun og líf fólks. „Hjá Mannviti viljum við spyrja: „Hvernig hefur þú það?“ því líðan fólks er mikilvægasti mælikvarðinn á gæði innivistar og þar með á gæði húsnæðis,“ segir Kristján Guðlaugsson verkfræðingur. „Við viljum frekar tala um rakaskemmdir en um myglu, því mygla er sjaldan ein á ferð. Læknir, sem talaði á málþingi sem við hjá Mannviti vorum með í október s.l., líkti myglu við hita sem við fáum ef við erum lasin. Hitinn er einkenni sem bendi á eitthvað annað sem þarf að lækna. Með sama hætti megi líta á myglu sem einkenni aðstæðna sem eru ekki eins og við viljum hafa þær.“

 

Loftgæði, hljóðgæði, ljósgæði

„Við notum mælingar á ákveðnum þáttum til þess að afla upplýsinga, en einna mikilvægast er að tala við fólkið sem er í húsnæðinu,“ segir Alma Dagbjört Ívarsdóttir, sérfræðingur á sviði innivistar. „Stundum eru sýnilegar skemmdir í húsnæðinu og stundum er ólykt, en stundum eru engin merki um skemmdir og samt líður fólki ekki vel. Það er mjög algengt að útloftun eða loftræsing sé ófullnægjandi og við notum mælingar m.a. til þess að meta það og fleiri þætti loftgæða. Hljóðvist og lýsing geta líka haft mikil áhrif og þarf að skoða samhliða.“ Hún segir að stundum finnist eitthvað sem ekkert tengist húsnæðinu. „Nýlega vorum við t.d. í húsnæði þar sem ekkert fannst að húsnæði eða umgengni en í ljós kom að á tilteknum tímum dags kom skaðleg loftmengun frá starfsemi í nágrenninu sem olli vanlíðan starfsfólksins!“

 

Vöktun innivistar

„Við bjóðum fyrirtækjum og stofnunum að fylgjast með innivist í húsnæði þeirra, annars vegar með skoðun og mælingum og hins vegar með því að ræða við fólkið í húsnæðinu og spyrja hreinlega: Hvernig hefur þú það?“, segja þau Alma og Kristján. „Með því að skoða mæliniðurstöður og svör fólksins má meta hvort allt sé í lagi eða hvort ráðast þurfi í aðgerðir í húsnæðinu. Við köllum þetta að vakta innivistina og við mælum með því að slík vöktun fari fram t.d. tvisvar á ári. Þannig uppgötvist vísbendingar um mögulegar skemmdir í húsnæðinu svo fljótt sem verða má. Með lagfæringum, og því að vakta líðan fólks eftir þær, verði svo til saga góðrar innivistar sem í raun sé gæðastimpill húsnæðisins.“