Jólastyrkur Mannvits til Reykjadals - Mannvit.is
Frétt - 16.12.2014

Jólastyrkur Mannvits til Reykjadals

Líkt og undanfarin ár sendir Mannvit út jólakveðju á rafrænu formi í stað hefðbuninna jólakorta. Áætlað andvirði jólakortanna rennur til viðkomandi góðgerðarfélags eða hjálparsamtaka sem starfsmenn hafa valið, og í ár er það Reykjadalur sem fær styrkinn. Drífa Sigurðardóttir, starfsmannastjóri Mannvits afhenti Margréti Völu Marteinsdóttur, forstöðumanni Reykjadals, ávísun í móttöku Mannvits, mánudaginn 15.12.2014.

 

Gleði, jákvæðni og ævintýri eru einkunnarorð Reykjadals og þar ríkir fjör. Árlega koma um 300 börn og ungmenni í Reykjadal yfir tímabil sem spannar sumarið og helgardvalir á veturna. Sumarbúðirnar hafa það að leiðarljósi að gefa þeim börnum og ungmennum sem þurfa sérstaka þjónustu vegna fötlunar tækifæri til að komast í sumarbúðir líkt og ófatlaðir jafnaldrar þeirra. Í Reykjadal er hugmyndafluginu gefinn laus taumurinn og mikið lagt upp úr að gera dvalir gestanna sem eftirminnilegastar.