Tulu Moye Drilling Supervision Mannvit
Frétt - 17.03.2020

Jarðhitaborun í Eþíópíu hafin

Borun fyrstu jarðhitaholu fyrir 50 MW jarðhitavirkjun í Eþíópíu er hafin. Tveir borsérfræðingar frá skrifstofu Mannvits á Íslandi eru staddir á svæðinu og tóku við eftirlitsstörfum af borverkfræðing frá skrifstofu Mannvits í Ungverjalandi. Ráðgjöfin snýr að undirbúningi, verkfræðihönnun og borráðgjöf fyrir jarðvarmavirkjun sem mun rísa á Tulu Moye jarðhitasvæðinu. Reykjavik Geothermal, sem er einn af eigendum Tulu Moye Geothermal (TMGO) ásamt franska fyrirtækinu Meridiam, hefur unnið að undirbúningi virkjunarinnar sem staðsett er um 150 km suðaustur af Addis Ababa. Í fyrsta áfanga mun TMGO vinna að uppbyggingu 50 MW virkjunar með allt að 12 framleiðslu- og niðurdælingarholum.

Þann 12 mars var opnað fyrir forvalsgögn frá verktökum í byggingu virkjunarinnar. Reiknað er með að útboðsgögn fyrir verðtilboð verði gefin út í maí.

Tulu Moye Geothermal (TMGO) hefur gert samning við M-V, sameiginlegt félag Mannvits og Verkís. M-V mun miðla af gríðarlegri reynslu sinni við þróun og uppbyggingu virkjunarinnar. Ráðgjafarfyrirtækin munu meðal annars veita ráðgjöf um hönnun á vegum, borstæðum, holuprófun, gufuveitu og boreftirlit. Verkefnið verður unnið í samstarfi við Landsvirkjun Power, ÍSOR og MGM.