Romanian Geothermal Project Grant Award - Mannvit.is
Frétt - 27.06.2014

Jarðhitastyrkur í Rúmeníu

Verkefni á vegum Mannvit hefur hlotið styrk til uppbyggingar jarðvarmaveitu í borginni Timisoara í Rúmeníu. Verkefnið er eitt fjögurra verkefna sem hlutu styrk úr Uppbyggingarsjóði EES samkvæmt RONDINE orkuáætluninni. Áætlaður heildarkostnaður verkefnisins er um 1.8 milljarðar króna en styrkurinn er samtals 600 milljónir króna. Árleg framleiðslugeta hitaveitunnar verður 40,8 GWh. Reiknað er með að framkvæmdir muni hefjast í september 2014, borholur verði kláraðar sumarið 2015 og nýting muni hefjast í apríl 2016. Þátttakendur í verkefninu eru fyrirtækin Mannvit og Sifee Terra Heat frá Rúmeníu í samstarfi við Timisoaraborg og Colterm orkuveitu borgarinnar. Einnig kemur ÍSOR að verkefninu.

 

„Þetta er gríðarlega jákvætt fyrir okkur og skiptir máli vegna allra þeirra verkefna sem við vinnum nú við og tengjast jarðhitamálum í Mið-Evrópu. Við munum fara strax í undirbúning og gerum ráð fyrir að hefja framkvæmdir á síðasta fjórðungi þessa árs,“ sagði Eyjólfur Árni Rafnsson, forstjóri Mannvits í viðtali við Fréttablaðið.

 

Kola og gasnotkun minnki

Verkefnið snýst um að bora vinnsluholu og niðurdælingarholu til að nýta jarðhitavatn fyrir fjarvarmaveitu Timişoaraborgar, þriðja stærstu borgar Rúmeníu. Borgin á tvö orkuver, en það sem þetta verkefni beinist að er í dag kynt með kolum og jarðgasi og er meðalnýting yfir veturinn 174‒227 MWth. Með tilkomu jarðvarmaveitunnar mun nýting jarðvarma til húshitunar í Rúmeníu aukast um 30% og sparnaður í gaslosun á koldíoxíði verða 13000 tonn á ári.

 

Utanríkisráðuneytið og Orkustofnun móta stefnu

Í fréttatilkynningu Orkustofnunar er fjallað nánar um styrkveitinguna. Þar segir„Að beiðni utanríkisráðuneytisins frá árinu 2010 hefur Orkustofnun undanfarin fjögur ár tekið þátt í mótun og nú framkvæmd orkuáætlana á vegum Uppbyggingarsjóðs EES. Orkustofnun hóf beint samstarf við rúmenska ríkið árið 2012 með systurstofnun Orkustofnunar í Noregi (NVE) og þá sérstaklega við umhverfis- og orkusjóð Rúmeníu (AFM) sem saman mynda stýrihóp RONDINE orkuáætlunarinnar.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, setti áætlunina í Búkarest í desember 2013 þar sem íslensk fyrirtæki í boði sjóðsins höfðu tök á að kynna starfsemi sína og eiga fundi með rúmenskum aðilum ásamt norskum. Í mars 2014 var opnað fyrir umsóknir um styrki í RONDINE áætlunina sem lauk 20. maí 2014."

 

Þriðja stærsta borg Rúmeníu

Timişoara stendur á ungversku sléttunni (Pannonian basin) en það svæði er ríkt af jarðhita og er ætlunin í þessu verkefni að bora niður á 1000‒1200 m dýpi og dæla þar upp 50‒65°C heitu vatni. Sökum þess hvað vatnslagið þar er þunnt reynist nauðsynlegt að dæla niður vatni til að viðhalda kerfinu. Með því að setja upp dælu er búist við því að hægt verði að ná 30‒40 l/s rennsli úr holunni. Holurnar verða boraðar innan borgarmarkanna sem lækkar kostnað. Timişoara er þriðja fjölmennasta borg Rúmeníu, með um 320.000 íbúa. Hún er miðja menningar og viðskipta í vesturhluta landsins og á rætur að rekja allt aftur til 13. aldar, en hún var meðal annars fyrsta borgin á meginlandi Evrópu sem var lýst upp með rafmagnsgötuljósum. Veðurfarið er fremur milt, en meðalhitastig í júlí er um 20°C en í janúar er það -1°C.