Karmøy álverið vígt - Mannvit.is
Frétt - 24.08.2017

Karmøy álverið vígt

Opinber vígsluhátíð vegna Karmøy Technology Pilot (KTP) verkefnisins var haldin 24 ágúst í Karmøy í Noregi. HRV, sem er í eigu Mannvits og Verkís, var með alhliða samning við Hydro um hönnun, innkaup og umsjón á hluta framkvæmdarinnar. Norski álframleiðandinn Hydro hefur um nokkurn tíma unnið að undirbúningi á byggingu þessarar nýju kerlínu í álverinu í Karmøy í Noregi sem notar minni raforku við framleiðsluferlið. Áætlað er að minnka raforkunotkun um 15 prósent á hvert framleitt kílógramm af áli og að útblástur á koltvísýringi verði minni en frá nokkru öðru álveri. Hátíðin fór fram með nýstárlegu sniði niður við höfn í smábænum Kopervik sem er næsti bær við álverið í Karmøy. Við höfnina var slegið upp heljarmiklum rapp og techno hljómleikum þar sem ungir listamenn stigu á stokk. Erna Solberg forsætisráðherra Noregs og fleiri norskir stjórnmálamenn fluttu erindi og að lokum var risastórum skærum pakkað í vandaðar umbúðir og flogið með þau yfir flóann í dróna til álversins. Skærin voru svo notuð til að klippa á borða sem strengdur var þvert yfir nýja kerskálann. Flugi drónans og klippingarathöfninni var svo sjónvarpað á risaskjái við hlið sviðsins.

Karmøy Technology Pilot (KTP) verkefnið

KTP verkefnið er verkefni á vegum norska fyrirtækisins Hydro. Verkefnið felur í sér byggingu nýrrar týpu af álveri  þar sem kerin og kerskálinn hafa verið bestuð þannig að ekki þarf að nota jafn mikla orku til að framleiða ál eins og venja er til í heiminum. Í tilraunakerjum hefur Hydro tekist að ná leiðandi stöðu hvað varðar orkusparnað og minnkun útblásturs koltvísýrings við álframleiðslu.

En álver er meira en bara kerskáli. Í hverju álveri sem notar forbökuð skaut þarf skautsmiðju sem sér um að festa ný rafskaut á skautgaffla sem notuð eru í kerjunum ásamt því að taka við útbrunnum rafskautum, hreinsa þau og flokka svo hægt sé að endurvinna afgangana af brunnu skautunum. Auk rafskautanna fellur til mikið af raflausn í álverum. Raflausnin eða kríólít er notað í fljótandi formi í kerjunum (960°C). Raflausn sem tekin er úr kerjunum þarf að kæla og mala til að hægt sé að hringrása efninu. Kæling og mölun á raflausn gengur alla jafnan undir nafninu baðefnavinnsla.

Samningurinn við HRV

Mannvit, í gegnum HRV, hefur á síðustu þremur árum tekið virkan þátt í þessu ferli og borið ábyrgð á hönnun og undirbúningi fyrir nýja skautsmiðju álversins. HRV tók þátt í rannsóknarvinnu við hönnun skautsmiðjunnar og baðefnavinnslunnar, þannig að afköst og útlit skautsmiðjunnar bæði hvað varðar upplegg véla, hönnun húss, raflagna, loftræsingar og byggingar hafa verið í höndum HRV frá upphafi. HRV tók einnig þátt í útboðsvinnu, innkaupum, móttöku og uppsetningu véla og tækja í skautsmiðju og baðefnavinnslu verksmiðjunnar. Samtals hefur HRV þegar notað um 85.000 vinnustundir við verkið. Þegar mest var voru um 30 manns á vegum HRV starfandi við verkið og enn eru 8 starfsmenn við vinnu við verkið í Noregi. Þessir átta eru enn studdir af starfsmönnum á Íslandi. Samningur HRV er alhliða samningur um hönnun, innkaup og umsjón framkvæmda en eins og gerist með önnur verkefni fyrirtækisins er verkefnisteymið aðallega mannað af starfsmönnum Mannvits og Verkís sem eru eigendur HRV. 

Ljósmyndir © Norsk Hydro