Keflavik International Airport - Mannvit.is
Frétt - 23.02.2015

Keflavíkurflugvöllur valinn besti flugvöllur í Evrópu 2014

Keflavíkurflugvöllur var valinn besti flugvöllur í Evrópu á síðastliðnu ári í viðamikilli þjónustukönnun meðal farþega sem framkvæmd er á öllum helstu flugvöllum um allan heim. Könnuninni er gerð á vegum alþjóðasamtaka flugvalla, Airports Council International (ACI), í árfjórðungslegri þjónustukönnun á meðal farþega tengt gæðum ýmissa þjónustuþátta. Þjónustukönnunin mælir fjölmarga þætti sem snerta m.a. viðmót starfsfólks, hreinlæti og þægindi við tengiflug.

Mikill stígandi hefur verið í stækkun og betrumbætum á Keflavíkurflugvellli samhliða auknum ferðamannastraumi. Þrátt fyrir þær breytingar hefur ISAVIA og starfsfólki flugstöðvarinnar tekist einkar vel að halda uppi góðri þjónustu við farþega. Þetta er staðfest með verðlaununum auk þess sem þetta er í þriðja sinn sem Keflavíkurflugvöllur hlýtur viðurkenningu ACI fyrir framúrskarandi árangur á undanförnum 5 árum.

Þessum aukna ferðamannastraumi fylgja áskoranir og meðal þeirra er stækkun flugstöðvarinnar. Fjölgun farþega milli ára hefur verið á bilinu 15 til 18% síðastliðin 2-3 ár. Mannvit hefur komið töluvert að framkvæmdum við breytingar og stækkun vallarins. Mannvit hafði m.a. með höndum alla raflagna- og lýsingarhönnun við stækkun suðurbyggingar til vesturs sem er um 5.000 fermetrar á tveimur hæðum ásamt kjallara. Möguleiki verður á að bæta þriðju hæðinni við. Einnig vinnur Mannvit að breytingum á verslunar- og veitingasvæði norðurbyggingar sem taka á í notkun á vor mánuðum, ásamt stækkun norðurbyggingar til austurs.Góð reynsla er komin á samstarfið því að hönnun á öllum tæknikerfum flugstöðvarinnar hefur frá upphafi verið unnin af Mannviti. Flugstöðvar eru flóknar byggingar, en Mannvit hannaði t.d. aðgangsstýrikerfi, hljóðkerfi, brunaviðvörunarkerfi, myndavélakerfi, flugupplýsingakerfi, ýmis hússtjórnarkerfi og tölvu- og símalagnakerfi. Einnig hafði Mannvit með höndum alla hönnun og útboðsgagnagerð um þann búnað og lagnir sem þarf til að landtengja flugvélar, flughlaðslýsingu, hönnun og gerð útboðsgagna fyrir nýja flugeldsneytislögn ásamt afgreiðslu- og tengibrunnum í nýtt flughlað vestan flugstöðvarbyggingarinnar.