Lífdísilverksmiðja Orkeyjar ehf. vígð á Akureyri - Mannvit.is
Frétt - 07.10.2010

Lífdísilverksmiðja Orkeyjar ehf. vígð á Akureyri

6. október var lífdísilverksmiðja nýsköpunarfyrirtækisins Orkeyjar á Akureyri vígð. Framleiðsla á lífdísli mun hefjast af krafti á næstu vikum og verður hráefnið að mestu úrgangssteikingarolía og dýrafitu.

Mannvit sá um tæknilega hlið verkefnisins; allt frá þróun að framleiðslu. Á tilraunastofu Mannvits á Akureyri var rekin tilraunaframleiðsla í nokkurn tíma og var afurðin m.a. notuð í tilraunaskyni á einn vagna Strætisvagna Akureyrar. Niðurstöðurnar úr tilraunaframleiðslunni voru svo nýttar við hönnun verksmiðjunnar. Auk þess vann Mannvit hagkvæmnimat fyrir vinnsluna og úttekt á aðgengi að hráefni.

Tankar og eimingartæki voru smíðuð á Akureyri auk þess sem nýttur var notaður búnaður. Fjárfestingarkostnaður er 45-50 Mkr.
Verksmiðja Orkeyjar er fyrsta alvöru lífdísilverksmiðjan sem gangsett er hérlendis.Stefnt er á að framleiða 300 tonn af lífdísil á fyrsta starfsárinu og er áætlað að fyrst um sinn muni starfsemi Orkeyjar skapa 2-3 ársverk auk nokkurra afleiddra starfa. Forsvarsmenn Orkeyjar eru bjartsýnir á vaxandi framleiðslu í framtíðinni.