
Laki Power hlýtur EU styrk
Nýsköpunarfyrirtækið Laki Power hefur hlotið styrk frá Evrópusambandinu að upphæð 335 milljóna króna (2,1 milljón evra). Styrkurinn sem einungis 1% umsækjenda hlutu mun hjálpa félaginu að efla sölu- og markaðsstarf á erlendum mörkuðum.
Mannvit og Óskar Valtýsson stofnuðu Laki Power árið 2015 til að þróa uppfinningu Óskars á tæknibúnaði sem er hengdur upp á háspennulínur og fylgist nákvæmlega með ástandi þeirra. Tæknin gerir fyrirtækjum sem annast flutning og dreifingu raforku kleift að hafa nákvæmt eftirlit með ísingu, eldi og umferð fólks við línurnar í rauntíma. Úrvinnsla gagnanna fer fram í skýjalausnum sem Laki Power hefur hannað og mun nú leggja áherslu á að þróa enn frekar með tilkomu styrksins.
Styrkurinn er hluti af sérstökum stuðningi Evrópusambandsins við nýsköpun þar sem markmiðið er að styrkja þau fyrirtæki sem eiga mesta möguleika á að vaxa á alþjóðlegum mörkuðum. Laki Power er eitt af 38 fyrirtækjum í Evrópu sem hljóta styrkinn eftir strangt matsferli, en alls bárust yfir 4,200 umsóknir.
Á mynd: Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, afhenti Óskari H. Valtýssyni, stofnanda Laka Power, nýlega stuðningsbréf frá íslenskum stjórnvöldum sem á að auðvelda sókn á erlenda markaði.