Landeyjahöfn Óháð Úttekt Skýrsla
Frétt - 23.10.2020

Landeyjahöfn - óháð úttekt á framkvæmd og nýtingu

Lokið hefur verið við óháða úttekt á Landeyjahöfn í samræmi við samgönguáætlun fyrir Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Í skýrslunni eru kynntar ráðleggingar fyrir mat á mögulegum endurbótum á höfninni en skýrslan er fyrsta skrefið og vegvísir að heildstæðri óháðri úttekt á Landeyjahöfn, sem gerir ráð fyrir tæknilegu mati og kostnaðarmati á mögulegum endurbótum. 

Skýrslan er unnin af Vatnaskil í samvinnu við Mannvit og LVRS Consultancy. Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér á vef Mannvit og á vef Stjórnarráðsins. Í frétt á vef Stjórnarráðsins segir m.a.:

Helstu niðurstöður skýrslunnar

Til að minnka verulega dýpkunarþörf þarf að ákvarða mögulegt dýpkunarfyrirkomulag sem tekur tillit til nýju ferjunnar og þeirrar reynslu sem fengist hefur á nýtingu hafnarinnar. Slíkt fyrirkomulag væri borið saman við dýpkunaraðgerðir hingað til, sem miðast við fyrri ferju, svo meta megi hvort dýpkunarþörf sé líkleg til að minnka.

Aðgerðir sem leiða til skjólmyndunar milli rifs og hafnarmynnis gagnvart háum öldum myndu bæta siglingarhæfi ferjunnar milli rifs og hafnar og eru líklegar til að styðja við dýpkunaraðgerðir. Mikilvægt er að greina slíkar aðgerðir frekar og leggja mat á virkni þeirra og hvort einhver vandkvæði kunna að vera líkleg vegna þeirra.

Ólíklegt er að unnt sé að gera endurbætur á höfninni eins og hún er í dag þannig að dýpkunarþörf hverfi. Til þess að slíkt markmið náist er líklegra að endurbætur þurfi að fela í sér róttækar lausnir sem krefjast endurhönnunar hafnarinnar. Slíka lausn þyrfti að skilgreina vel og meta til samanburðar við aðrar lausnir til endurbóta á höfninni. Dæmi um slíka útfærslu væri að byggja nýja höfn utan við rifið sem tengd væri eldri höfn með brú. Frá júlí 2019-maí 2020, eða eftir að nýr Herjólfur var kominn í gagnið, var Landeyjahöfn opin 90% tímabilsins. Á sama tímabili 2012-2013 var nýting Landeyjarhafnar lægri en 70%.