Bridges.jpg
Frétt - 01.08.2023

Lífsferilsgreiningar í íslenskri vegagerð

Fyrr á þessu ári hlaut Mannvit styrk úr rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar. Markmiðið með rannsókninni var að skoða hvort beita megi norska lífsferilsgreiningaforritinu VegLCA við hönnun og gerð íslenskra samgöngumannvirkja til þess að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda í vegagerð. Þá var jafnframt skoðað grannt hvort aðlaga þyrfti kerfið að íslenskum aðstæðum við notkun þess.

Lífsferilsgreining er aðferðafræði sem er notuð til þess að meta staðbundin og hnattræn umhverfisáhrif vöru, byggingar eða þjónustu yfir líftíma hennar og er VegLCA forritið notað til þess að reikna og yfirfara þessa þætti.

Í rannsóknarverkefninu var forritið prófað á íslenskum samgöngumannvirkjum; vegi, stálbrú og steyptri brú. Fram kemur að greiningar hafi verið gerðar á því hvort og hvernig mannvirkin pössuðu inn í forritið og hvaða vandamál kynnu að koma upp við notkun þess. Einnig voru niðurstöður úr forritinu bornar saman við niðurstöður eldri vistferilsgreininga sem hafa verið framkvæmdar á sambærilegum mannvirkjum. Niðurstöður verkefnisins benda til þess að hægt sé að nýta lífsferilsgreiningaforrit, líkt og VegLCA, í íslenskri vegagerð en að aðlaga þurfi tiltekið forrit að íslenskum aðstæðum verði það tekið í notkun hér á landi.

Fyrir áhugasama má lesa verkefnið í heild sinni hér.