Ljósið hlýtur styrk - Mannvit.is
Frétt - 15.02.2018

Ljósið hlýtur styrk

Mannvit lagði Ljósinu nýlega lið með fjárstyrk. Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Líkt og undanfarin ár hefur Mannvit lagt góðum málefnum lið í stað þess að senda út hefðbundin jólakort til viðskiptavina. Anna Sigríður Jónsdóttir, iðjuþjálfi hjá Ljósinu tók á móti styrknum og sagði starfsfólki Mannvits frá starfsemi Ljóssins við sama tilefni. Starfsfólk Ljóssins á þakkir skilið fyrir óeigingjarnt starf. Við óskum þeim einstaklingum og fjölskyldum sem njóta aðstoðar Ljóssins bata í baráttunni við þennan skæða sjúkdóm.

Markmið Ljóssins er að fólk fái sérhæfða endurhæfingu- og stuðning, þar sem fagfólk aðstoðar við að byggja upp líkamlegt og andlegt þrek, auk þess að fá stuðning við að setja sér markmið sem auka daglega virkni og hafa þannig áhrif á lífsgæði almennt. Til að auka virkni og þrek býður Ljósið upp á fjölbreytta dagskrá fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra.  Þess má geta að ýmsir fagaðilar starfa með Ljósinu; iðjuþjálfar, sjúkraþjálfari, sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar, jógakennarar, nuddarar, læknar, geðlæknar, handverksfólk og fleiri.