a28a9261ca62d5de.JPG
Frétt - 16.12.2014

Lofthreinsistöð Hellisheiðarvirkjunar í gagnið

Orka náttúrunnar hefur tekið við umsjón og rekstri lofthreinsistöðvarinnar við Hellisheiðarvirkjun. Hreinsistöðin tekur við útblæstri frá Hellisheiðarvirkjun og skilur úr honum brennisteinsvetni (H2S) og koltvísýring (CO2) og dælir djúpt niður í berggrunninn. Gert er ráð fyrir að stöðin hreinsi allt að þriðjung brennisteinsvetnis úr útblæstri virkjunarinnar.

 

Jarðvísindafólk Orkuveitunnar hefur stýrt verkefninu en Mannvit lék veigamikið hlutverk í hönnun og uppkeyrslu hreinsistöðvarinnar. Mannvit var með yfirumsjón og samræmingu hönnunar og sá um eftirliti með smíði og uppsetningu. Meðal verkefna var að hanna hermunarlíkan þar sem virkni vinnsluferilsins var sannreyndur, samræmdur og einstakir hlutar stöðvarinnar stærðaðir. Ferilhönnun (P&ID) og hönnun á þvottaturni, sem sér um að aðskilja gösin úr útblæstrinum, var í höndum Mannvits ásamt allri stállagnahönnun svo og fyrirkomulag búnaðar.

 

Rekstur lofthreinsistöðvar

Tilraunarekstur lofthreinsistöðvarinnar hófst á vormánuðum 2014 og þar með niðurdæling brennisteinsvetnis.  Unnið hefur verið að ýmissi aðlögun hennar að virkjuninni síðan, en þeirri vinnu er nú lokið. Lofthreinsistöðin er þróunar- og tilraunaverkefni byggt á vísindarannsóknum við Hellisheiðarvirkjun allt frá árinu 2007. Í stöðinni eru brennisteinsvetni og koltvísýringur skilin frá jarðhitagasinu sem samanstendur aðallega að þremur gastegundum; koltvísýringi CO2, brennisteinsvetni H2S og vetni H2. Nánast allt brennisteinsvetnið (98%) og hluti koltvísýringsins (50%) eru leyst upp í þéttivatni frá virkjuninni og dælt niður á 1.000 til 2.000 metra dýpi. Samkvæmt útreikningum hefur um 1.000 tonnum af brennisteinsvetni verið veitt aftur niður í jarðlög frá því rekstur hennar hófst. Samkvæmt þeirri verkefnisáætlun, sem Orka náttúrunnar vinnur eftir, er reiknað með að reka stöðina í eitt ár áður en metið er hvort þessi nýja aðferð ber tilsettan árangur.

 

Binding koltvísýrings staðfest

Nýlegar rannsóknir á borkjörnum úr berggrunninum á niðurrennslissvæði CarbFix verkefnisins gefa sterklega til kynna að kenningar vísindamanna standist; um að koltvísýringurinn kristallist í basalthraununum og þar með sé þessi helsta gróðurhúsalofttegund bundin í jarðlögum um fyrirsjáanlega framtíð. Rannsóknir sýna að 85-90% koltvísýringsins bindist með þessum hætti innan árs frá niðurdælingu.

 

Næstu tilraunaverkefni

Samkvæmt Orku náttúrunnar er til skoðunar að reisa ofan við virkjunina, gufuháf sem rekinn verður samhliða niðurdælingunni. Rannsóknir á veðurfari við virkjunina benda til að með honum megi tryggja aukna dreifingu útblásturs og draga þar með úr styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti og við yfirborð, þannig að styrkur brennisteinsvetnis fari ekki yfir tilskilin leyfileg mörk í byggð. Gufuháfurinn, ásamt búnaði honum tengdum verður staðsettur á borplani 7 sem er fyrir ofan skiljustöð 2 í Hellisskarði. Gert er ráð fyrir að sá hluti af gasinu sem ekki fer í gegnum lofthreinsistöðina fari upp um gufuháfinn. Gert er ráð fyrir að hefja tilraunarekstur á gufuháfinum á vormánuðum.