a28a9261ca62d5de.JPG
Frétt - 17.05.2016

Lofthreinsistöð Hellisheiðarvirkjunar stækkuð

Á árinu 2014 tók Orka náttúrunnar í notkun hreinsistöð við Hellisheiðarvirkjun sem tekur við útblæstri frá Hellisheiðarvirkjun og skilur úr honum brennisteinsvetni (H2S) og koltvísýring (CO2). Hreinsistöðin hreinsaði allt að þriðjung brennisteinsvetnis úr útblæstri virkjunarinnar. Þar sem reksturinn þótti ganga vel var ákveðið að tvöfalda afköst stöðvarinnar. Áætlað er að rekstur á stækkaðri stöð hefjist í maí eða júní á þessu ári.

Mannvit var með yfirumsjón og samræmingu hönnunar og sá um eftirliti með smíði og uppsetningu og hefur annaðist uppkeyrslu hreinsistöðvarinnar. Meðal verkefna var að hanna líkan þar sem virkni vinnsluferilsins var hermdur, samræmdur og einstakir hlutar stöðvarinnar stærðaðir. Ferilhönnun (P&ID) var breytt vegna stækkunarinnar en hönnun þvottaturns, sem sér um að aðskilja gösin úr útblæstrinum, var óbreytt. Bætt var við búnaði til að auka afköst svo sem þjöppum og dælum.

Rekstur lofthreinsistöðvar

Undirbúningur að hreinsun brennisteinsvetnis úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar hófst 2007 þegar Mannvit tók saman hvaða leiðir voru í notkun í heiminum og setti fram hugmynd að nýrri og ódýrari lausn. Í framhaldinu var hönnuð tilraunastöð og hún boðin út, byggð og rekin í um 2 ár, áður en ákveðið var að byggja þá stöð sem nú er í rekstri.

Tilraunarekstur hreinsistöðvarinnar hófst á vormánuðum 2014 og þar með niðurdæling brennisteinsvetnis og koldíoxíðs.  Unnið hefur verið að aðlögun hennar að virkjuninni síðan, en þeirri vinnu er nú að mestu lokið. Í stöðinni eru brennisteinsvetni og koltvísýringur skilin frá jarðhitagasinu sem samanstendur aðallega að þremur gastegundum; koltvísýringi (CO2), brennisteinsvetni (H2S) og vetni (H2). Nánast allt brennisteinsvetnið (98%) og hluti koltvísýringsins (50%) eru leyst upp í þéttivatni frá virkjuninni og dælt niður á 1.000 til 2.000 metra dýpi. Samkvæmt verkefnisáætlun Orku náttúrunnar var reiknað með að reka stöðina í eitt ár áður en metið var hvort þessi nýja aðferð bæri tilsettan árangur. Niðurstaða Orku náttúrunnar var sú að veðja á þessa leið, a.m.k. þar til aðrar leiðir sem nýta gasið betur hafa verið þróaðar.

Hagkvæm lausn 

Eins og fram kemur í máli Bjarna Más Júlíussonar, forstöðumanns tækniþróunar ON, er þessi leið allt að 10 sinnum hagkvæmari en aðrar leiðir sem notaðar eru í jarðhitageiranum. Það má því segja að tillögurnar sem settar voru fram um lausn fyrir brennisteinsvetnisútblástur á Hellisheiði hafi nú skilað sér að fullu í bættum mengunarvörnum virkjunarinnar.

Mannvit vinnur áfram með jarðhitafyrirtækjunum við að leita leiða til að nýta jarðhitagastegundir sem auðlind, til framleiðslu á ýmsum söluvörum.

Mengunarvandinn leystur

Í frétt Fréttablaðsins frá 29. apríl segir: Orka náttúrunnar (ON), sem er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, telur að mengunarvandinn vegna brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun sé leystur. Frá því að niðurdæling á jarðhitagösum hófst í stórum stíl í júní 2014 hefur styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti í þéttbýli aldrei farið yfir reglugerðarmörk.

Um stórt skref er að ræða fyrir fyrirtækið en Bjarni Bjarnason, forstjóri OR lýsti því yfir á sínum tíma að útblástur brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun væri „stærsti umhverfisvandi sem Orkuveitan glímdi við."

Bjarni Már Júlíusson, forstöðumaður tækniþróunar hjá ON, segir að nú einbeiti fyrirtækið sér að því að þróa lausnir til að hagnýta jarðhitagösin ásamt öðrum auðlindastraumum frá Hellisheiðarvirkjun, svo sem til ræktunar og eldsneytisframleiðslu og fleira.

„Til að tryggja áframhaldandi árangur af verkefninu á Hellisheiði var ákveðið að tvöfalda afköst lofthreinsistöðvarinnar og er áætlað að gangsetja stækkunina í næsta mánuði,“ segir Bjarni og vísar til Sulfix verkefnisins á Hellisheiði, en ákveðið var í fyrra að tvöfalda afköst stöðvarinnar þannig að hún hreinsi allt að 60% brennisteins í útblæstri virkjunarinnar á þessu ári.
Bjarni rifjar upp að stífar reglur um hámarksstyrk á brennisteinsvetni (H2S) í byggð á Íslandi voru settar árið 2010, þá ákváðu íslensku jarðhitafyrirtækin að þróa í sameiningu „bestu“ lausnina til að draga úr styrk H2S sem rekja má til háhitanýtingar. Bjarni leiddi starf hóps af sérfræðingum frá OR, síðar ON, Landsvirkjun og HS Orku. „Afurðin úr þessu samstarfi er þróun á lofthreinsistöðinni sem hefur nú verið rekin á Hellisheiði í tæp tvö ár með góðum árangri. Nú er verið að tvöfalda afköst stöðvarinnar enda er þessi aðferð um 10 sinnum hagkvæmari en hefðbundnar iðnaðarlausnir við að draga úr styrk brennisteinsvetnis frá jarðgufuvirkjunum. Með Sulfix-stöðinni er hlutfall brennisteinsvetnis í jarðhitalofttegundunum lækkaður úr 29% niður í um 1%,“ segir Bjarni en þegar stöðin var ræst 2014 hreinsaði hún 25-30% brennisteinsvetnis í útblæstrinum, blandar því í vinnsluvatn virkjunarinnar og dælir niður á um 800 metra dýpi þar sem það binst við steindir. Annað viðfangsefni á Hellisheiði snýr að koltvísýringi í útblæstrinum. Það er alþjóðlegt vísindaverkefni sem OR er í forystu fyrir, styrkt af Evrópusambandinu. Koltvísýringur er hreinsaður úr útblæstrinum, honum blandað í vinnsluvatnið og dælt niður á um 400 metra dýpi. Þar fellur kolefnið út og myndar silfurberg – sem er tært afbrigði af kristölluðum kalksteini."