Mælingar Og Rannsóknir Fyrir Litlar Vatnsaflsvirkjanir Og Vindmyllur
Frétt - 02.02.2021

Undirbúningsrannsóknir og mælingar | Vatnsaflsvirkjun og vindmyllur

Viðtal við Sverrir Ó. Elefsen, efnatæknifræðing hjá Mannviti birtist í Fréttablaðinu þann 30.janúar. Í viðtalinu gefur Sverrir innsýn í þær mælingar og rannsóknir sem krafist er við undirbúning lítilla vatnsaflsvirkjana ásamt öðrum verkefnum sem Mannvit vinnur fyrir viðskiptavini á þessu sviði.

"Mannvit veitir tæknilega ráðgjöf á sviði orku, iðnaðar og mannvirkjagerðar. Stofan sérhæfir sig í verkfræði, jarðvísindum, umhverfismálum, upplýsingatækni og byggingarefnisrannsóknum. Meðal verkefna sem stofan sinnir eru undirbúningsrannsóknir fyrir litlar - vatnsaflsvirkjanir ásamt mati á hagkvæmni, mati á umhverfisáhrifum og öflun tilskilinna leyfa fyrir framkvæmdum.

Sverrir Óskar Elefsen efnatæknifræðingur hóf störf hjá Mannviti árið 2006 en hann var áður hjá Orkustofnun. „Ég hef leitt uppbyggingu á þjónustu Mannvits við vatnamælingar og tengdar rannsóknir, sem fela meðal annars í sér mælingar á eðlis- og efnaeiginleikum grunnvatns, yfirborðsvatns, sjávar, fráveituvatns og veðurs. Síðan tengjast þessu starfi til dæmis litlar vatnsaflsvirkjanir þar sem við önnumst ákveðnar forathuganir eins og mælingar á rennsli og aurburði vatnsfalla. Samhliða stillum við upp ákveðnum drögum að virkjun og metum orkugetu og hagkvæmni mismunandi virkjunarkosta.“ Viðskiptavinir Mannvits í umræddum verkefnum eru úr öllum geirum atvinnulífsins. „Við erum að vinna fyrir orkufyrirtæki og veitufyrirtæki, stór og smá, sveitarfélög og iðnfyrirtæki.“

Tímafrekt ferli

Eitt af því sem Sverrir fæst við í sínu starfi eru undirbúningsrannsóknir fyrir byggingu vatnsaflsvirkjana. Hann segir áríðandi að hefja rennslismælingar snemma í ferlinu. „Það er vegna þess að öll hönnunarvinna, leyfismál og mat á umhverfisáhrifum er vinna sem tekur mjög langan tíma. Það er því mikilvægt að láta tímann vinna með sér og safna rennslisgögnum á meðan en breytileiki í rennsli innan árs og milli ára getur verið bæði mikill og lítill eftir vatnsföllum,“ segir hann.

„Í sumum tilfellum höfum við verið í samstarfi við verkfræðistofuna Vatnaskil um mat á tiltæku rennsli, einkum þegar um stærri virkjanir er að ræða. Síðan sjáum við einnig um alhliða hönnun á virkjunum og erum með svið innan fyrirtækisins sem taka að sér til dæmis mat á umhverfisáhrifum, deiliskipulagsvinnu, öflun tilskilinna leyfa, að ógleymdri rannsóknarstofu byggingarefna.“

Sverrir segir að líta þurfi í mörg horn áður en ákvörðun er tekin um byggingu vatnsaflsvirkjunar. „Það er fjölmargt sem þarf að gera áður eins og að kanna aðstæður, jafnt tiltækt rennsli sem landfræðilegar aðstæður. Svo þarf að frumhanna virkjun, meta hagkvæmni og umhverfisáhrif og afla tilskilinna leyfa. Það eru svona okkar helstu verkþættir á þessu stigi málsins.“

Mat á hagkvæmni

Þá sinnir Mannvit einnig mati á hagkvæmni. „Í tilfelli vatnsaflsvirkjana eru það þá forsendur um virkjanlegt rennsli og í framhaldi af því orkureikningar út frá forsendum um fallhæð og mögulega miðlun jafnvel. Mat á hagkvæmni felst í því að sjá hvaða orku maður fær úr viðkomandi mannvirki, hversu langt þarf að flytja orkuna, hvaða kostnaður er við að tengjast inn á dreifikerfið og síðan hvaða tekjur mögulega fást. Þetta eru hlutir sem við erum að skoða,“ útskýrir Sverrir.

„Varðandi litlar vatnsaflsvirkjanir þá höfum við tekið að okkur fleiri en eitt verkefni sem ganga út á að gera það sem við köllum skrifborðsvinnu. Í því felst að safna saman gögnum um landfræðilegar aðstæður, hæðarlínugrunna, vatnafarsgrunn og meta hvar væri mögulega hægt að vera með vatnsaflsvirkjunina. Þá höfum við safnað saman tilteknum gögnum um vatnafar á svæðunum og metið hvað sé raunhæft virkjanlegt rennsli fyrir þessar virkjanir og reiknað þannig út orkugetu og hagkvæmni.“

Mælingar og gagnaöflun

Vinnan á þessu stigi er yfirgripsmikil. „Það eru ákveðin landsvæði sem við erum að skoða, eins og til dæmis á Norðvesturlandi og í Dalvíkurbyggð, þar sem við höfum í raun skannað allt sveitarfélagið og listað upp jafnvel einhverja tugi smávirkjunarkosta. Síðan velja menn úr þessu en það kemur oft í ljós strax að einhverjir kostir eru óraunhæfir og svo eru sett spurningarmerki við aðra, og síðan eru einhverjir kostir sem líta vel út. Sveitarfélögin, eins og Dalvíkurbyggð eða samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, hafa kostað þessa vinnu og fleiri sveitarfélög sem hafa kostað sambærilega vinnu sem aðrir hafa unnið, sérstaklega á norðanverðu landinu.“ Þá taka við frekari rannsóknir og mælingar.
„Næsta skref er þá að skoða þetta betur og það er þá í fyrsta lagi að byrja á rennslismælingum, en samhliða því að huga að öflun nákvæmari gagna þannig að það sé hægt að fara í ákveðna frumhönnun á virkjun og meta jafnvel umhverfisáhrif, skoða leyfismál og gera samninga við landeigendur. Á þessu stigi þarf að koma til einhver ákveðinn verkkaupi sem getur þá komið með fjármagn inn í verkefnið.“

Fjölbreytt þjónusta

Mannvit fæst við ýmis annars konar verkefni. „Við erum til dæmis að þjónusta veitufyrirtæki með fráveitumælingar og líka iðnfyrirtæki. Við höfum einnig verið að rannsaka vatnsöflun fyrir fiskeldisfyrirtæki og veitt ráðgjöf á því sviði.“ Sverrir segir sérstöðu Mannvits meðal annars felast í yfirgripsmikilli þekkingu á langtímagagnasöfnun ásamt því að eiga og útvega tæknibúnað fyrir verkefni í langtímavöktun. „Auk þess erum við, ásamt Landsvirkjun og Veðurstofunni, einu aðilarnir á landinu sem nýta gagnavinnslukerfið Wiski, en það nýtist vel við úrvinnslu og greiningu á vatnafarsgögnum og öðrum tímaháðum mælistærðum. Samhliða þessu veitum við okkar viðskiptavinum aðgang að gögnunum á vefsíðu þannig að þeir geti fylgst með framgangi sinna verkefna.“

Viðtalið á vef Fréttablaðsins.