Í hópi stofnaðila jarðvarmaklasa - Mannvit.is
Frétt - 29.06.2011

Mannvit í hópi stofnaðila jarðvarmaklasa

Mannvit ásamt helstu jarðhitafyrirtækjum landsins auk annarra fyrirtækja hafa sett á stofn samstarfsvettvang jarðvarmaklasa á Íslandi. Formlega var gengið frá samstarfinu á fundi í Arion banka í gær en þar var einnig kynnt skýrslan Virðisauki í jarðvarma sem fjallar um klasann og þá möguleika sem í honum felast.  Eyjólfur Árni Rafnsson forstjóri Mannvits flutti erindi á fundinum um væntingar stofnaðila til jarðvarmaklasans en Mannvit er einn af stofnaðilum samstarfsins ásamt 20 aðilum. Meðal þeirra eru Landsvirkjun, HS Orka, GEORG, Íslandsbanki, Samtök iðnaðarins, OR, Arion banki o.fl. Á fundinum tóku jafnframt til máls þau Stefán Pétursson, Arion banka, Hákon Gunnarsson og Þóra M. Þorgeirsdóttir frá Gekon og Dr. Michael Porter. Með þátttöku sinni í jarðvarmaklasanum vill Mannvit stuðla að frekari uppbyggingu þekkingar á sviði jarðhitanýtingar á Íslandi. Þess má geta að Mannvit er einnig þátttakandi í Georg (GEOthermal Research Group), samstarfsverkefnis á sviði jarðhitarannsókna á Íslandi.

Styrkur í heildinni

Markmið með klasasamstarfinu er að bæta samkeppnishæfni jarðhitafyrirtækja og þar af leiðandi Íslands, auka verðmæti afurða og þjónustu, efla núverandi fyrirtæki og stuðla að nýsköpun og stofnun nýrra fyrirtækja, laða að innlenda og erlenda fjárfesta, stuðla að útflutningi á jarðhitaþekkingu og tækniframförum í jarðhitaiðnaðinum. Styrkurinn liggur í því að með klasa skapast ákveðin heild sem er mun sterkari en einstaka aðili hver í sínu lagi.

Í skýrslunni “Virðisauki í jarðvarma” eru skilgreind tíu samstarfsverkefni sem miða að uppbyggingu klasans á næstu árum. Verkefnin verða unnin með markvissum hætti á tímabilinu júlí 2011 til desember 2012 þar sem aðferðum klasastjórnunar verður beitt. Höfundar skýrslunnar eru Hákon Gunnarsson og Þóra Margrét Þorgeirsdóttir hjá fyrirtækinu Gekon. Skýrslan byggir m.a. á kortlagningu klasans sem kynnt var á ráðstefnunni Iceland Geothermal 2010 í nóvember sl. Kortlagningin var unnin af Dr. Michael Porter og Dr. Christian Ketels í samvinnu við Gekon. Dr. Porter er professor við Harvard háskóla og einn helsti fræðimaður heims á sviði stefnumótunar og samkeppnishæfi þjóða.

Niðurstaða greiningarinnar á jarðvarmaklasanum var að mikil tækifæri lægju í þróun hans á næstu árum og áratugum. Þá var bent á þrjú stór vaxtartækifæri. Fyrir það fyrsta að laða til landsins orkuháða starfsemi. Þá séu miklir möguleikar á útflutningi jarðvarmaorku verði lagður sæstrengur til Evrópu. Auk þess sé töluverð sérfræðiþekking innan íslenska klasans sem flytja megi út.