Geoelec - Mannvit.is
Frétt - 09.02.2012

Mannvit þátttakandi í evrópska GEOELEC verkefninu

Mannvit er þátttakandi í GEOELEC verkefninu sem er styrkt af Intelligent Energy Europe framtaki Evrópusambandsins. Tilgangur verkefnisins er að kynna jarðvarma og ýta undir nýtingu hans í Evrópu, sérstaklega nýtingu jarðvarma til framleiðslu á rafmagni með EGS (Enhanced Geothermal System) tækninni. EGS tæknin er einskonar neðanjarðar varmaskiptir, eða þegar berggrunnurinn er gagngert sprengdur til að hægt sé að dæla gegnum hann vatni og ná þannig upp jarðvarma sem væri annars ekki aðgengilegur.

 

Markmið GEOELEC verkefnisins er að útbúa framkvæmdaáætlun, til að tvöfalda framleidda orku jarðvarmaorkuvera í Evrópu úr 11 TWh á ári árið 2010, sem í dag kemur aðallega frá Ítalíu og Íslandi, yfir í 22 TWh á ári á tiltölulega stuttum tíma. Jafnframt er markmiðið að hefja fleiri verkefni í öllum EU ríkjum og auka þannig orkuframleiðslu í 55 TWh á ári árið 2020. Í framkvæmdaáætlun mun einnig vera tekið á hvað þarf til þess að ná þessum markmiðum svo sem; skilyrðum fyrir hagnaði af verkefnum, nauðsynlegan lagaramma og samþykki samfélagsins.

 

Hluti af verkefnum sem þarf að ráðast í til þess að útbúa framkvæmdaáætlunina eru:

  1. Kortlagning möguleika jarðvarmanýtingar í Evrópu með því að safna öllum upplýsingum sem eru aðgengilegar um jarðvarmaauðlindina. Það er gert með „Data Gathering Workshops“ sem eru í gangi núna. Mannvit mun safna saman upplýsingum um Ísland.
  2. Vinna úr upplýsingunum áætlun um hve mikla raforku má vinna úr jarðvarma í Evrópu samkvæmt aðferðafræði sem er þróuð með sömu aðferðum og mat á olíuauðlindum. Aðferðafræðin er yfirfærð á jarðvarmaauðlindina m.a. með aðstoð Mannvits.
  3. Þróa og dreifa upplýsingabækling um leiðir til að auka fjárfestingu í jarðvarma með kynninga á hve mikil fjárfesting er nauðsynleg til að ná settum markmiðum GEOELEC verkefnisins.
  4. Setja fram ráðleggingar til að bæta lagaumhverfi og samþykktarferli.
  5. Kynna betur áhrif sem nýting jarðvarma hefur á umhverfið til að auka skilning og fá samþykki almennings á nýtingu jarðvarma ásamt því að hnykkja á sjálfbærri nýtingu.
  6. Kynningar á jarðvarma, möguleikum í Evrópu og niðurstöðum úr GEOELEC verkefninu víðsvegar um Evrópu. Þar á meðal mun skrifstofa Mannvits í Ungverjalandi sjá um kynningar á ráðstefnu í Búdapest árið 2013.
  7. Halda framhaldsnámskeið um málefni tengd þróun og nýtingu jarðvarma.

 

Mannvit vinnur að GEOELEC verkefninu sem undirverktaki EGEC (European Geothermal Energy Council) en verkefnið er samstarf níu evrópskra fyrirtækja frá átta löndum. Verkefnið hófst í júní 2011 og stendur yfir í 30 mánuði. Í verkefninu felst skýrslugerð, kynningarfundir og þátttaka í kynningarfundum annarra. Mannvit mun taka þátt í næsta vinnufundi til upplýsingasöfnunar sem haldinn verður í Offenburg í Þýskalandi fyrir eftirtalin lönd; Pólland, Tékkland, Slóvakía, Ungverjaland, Austurríki, Sviss og Þýskaland. Hægt er að fá frekari upplýsingar og fylgjast með framvindu í verkefnisins á www.geoelec.eu.