Mannvit to design new prison - Mannvit.is
Frétt - 03.10.2012

Mannvit annast hönnun á nýju fangelsi

Mannvit og Arkís skrifuðu í síðustu viku undir samning um hönnun á nýju fangelsi á Hólmsheiði en tillaga Arkís var hlutskörpust úr hópi átján tillagna. Mannvit mun sjá um hönnun og útboð á jarðvinnu, burðarvirkjum, loftræstingu, lögnum og hljóðvist. Að auki mun Mannvit sjá um hönnun aðkomuvega og lagna að lóð fangelsisins á Hólmsheiði.

Áætlaður kostnaður við fangelsið er rúmlega 2 milljarðar króna. Hönnun fangelsisins mun fara fram í vetur og er stefnt að því að verkefnið fari í útboð vorið 2013.

Þá undirritaði innanríkisráðherra í gær Nordic Built sáttmálann ásamt fulltrúum hönnunarteymisins sem vinnur að hönnun nýja fangelsisins. Nordic Built er samvinnuverkefni sem hvetur til þróunar samkeppnishæfra lausna í vistvænni mannvirkjagerð. Ákveðið hefur verið að fangelsið á Hólmsheiði verði vottað samkvæmt alþjóðlega umhverfisvottunarkerfinu BREEAM og fellur það því afar vel að öllum 10 meginreglum Nordic Built sáttmálans. Með þeirri hugmyndafræði er við sköpun á manngerðu umhverfi leitast við að auka lífsgæði, nýta sjálfbærni, staðbundnar auðlindir og byggja á norrænni hönnunarhefð eins og hún gerist best.

Norræna ráðherraráðið fjármagnar verkefnið ásamt Nordic Innovation, sem einnig er í forsvari fyrir framkvæmd þess í samvinnu við Norðurlöndin. Verkefnið miðar að því að Norðurlöndin nái markmiðum sínum um að vera í forystu um nýsköpun, grænan hagvöxt og velferð. Með því að hvetja til samvinnu á milli landa og atvinnugreina er stofnað til nýstárlegs samstarfs sem skila á nýsköpun í byggingariðnaði.

Á myndinni hér að ofan eru frá vinstri: Eiríkur K. Þorbjörnsson frá Verkís, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Óskar Valdimarsson, einn sendiherra Nordic Built, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður stýrihóps fangelsisbyggingarinnar, Þorvarður Björgvinsson frá Arkís, Einar Ragnarsson frá Mannviti og Gunnar Kristjánsson frá VSI - öryggishönnun og ráðgjöf.