Mannvit eignast hlut í GTN LA - Mannvit.is
Frétt - 11.04.2011

Mannvit eignast hlut í GTN LA

Mannvit er orðinn einn þriggja eigenda í GTN Latin America (GTN LA), jarðhitafélagi í Chile sem einnig er í eigu Fundación Chile og GTN í Þýskalandi.

Tilgangur GTN LA er að bjóða þjónustu í nýtingu jarðhita á vegum GTN og Mannvits í Chile og öðrum mörkuðum í Mið- og Suður Ameríku. Fundación Chile (FCh) er eins konar nýsköpunarmiðstöð Chile sem stuðlar að innleiðingu á nýrri tækni og þekkingu til Chile. Skrifstofa GTN LA er staðsett í húsnæði FCh í Santiago, Chile. Þess má geta að Mannvit á einnig þriðjungshlut í GTN í Þýskalandi.

Chile er eitt þróaðasta ríki Suður Ameríku. Gert er ráð fyrir töluverðri aukningu í raforkunotkun í Chile á næstu 10 árum en Chile er stærsti koparframleiðandi heims og námuiðnaðurinn nýtir stóran hluta orkunnar. Mat sérfræðinga á  auðnýtanlegum jarðhita í Chile er á bilinu 1200-3300 MW í raforkuframleiðslu og undanfarin misseri hafa fjölmörg rannsóknarleyfi verið boðin út. Hinsvegar er engin jarðhitavirkjun í Chile í dag.