Interview with Runolfur Maack - Mannvit.is
Frétt - 07.09.2010

Mannvit finnur heitt vatn í Ungverjalandi

Mannvit fann í síðustu viku heitt vatn í nágrenni borgarinnar Miskolc í Ungverjalandi, en Mannvit hefur síðustu ár starfað sem ráðgjafi ungverska orkufyrirtækisins Pannergy við jarðhitaverkefni þar í landi. Boranir hófust við Miskolc síðastliðið vor og í síðustu viku fannst heitt vatn á ríflega tveggja kílómetra dýpi. Fyrstu mælingar benda til að borholan gefi á bilinu 70-90 sekúndulítra af 110-120 gráðu heitu vatni sem er talsvert framar vonum og bendir til að svæðið muni skila meiri nýtanlegum jarðvarma en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Mannvit annaðist allar nauðsynlegar jarðfræði- og jarðeðlisfræðirannsóknir vegna  staðsetningar á borholunni og hönnun hennar. Mannvit hafði jafnframt umsjón og eftirlit með sjálfri borframkvæmdinni, mati á afköstum holunnar og þróun svæðisins hvað varðar frekari boranir.

Þetta er í annað skipti sem Mannvit finnur heitt vatn í Ungverjalandi sem ráðgjafi Pannergy, en síðasta haust fannst heitt vatn nálægt bænum Szentlörinc í suðvesturhluta landsins. Í sumar lagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ásamt Pál Kovács, vararáðuneytisstjóra þróunarmálaráðuneytis Ungverjalands, og Márk Győrvári, borgarstjóri Szentlőrinc, hornstein að hitaveitu Szentlörinc sem hönnuð var af Mannviti fyrir Pannergy. Hún verður sú stærsta í Ungverjalandi sem notar alfarið endurnýjanlega og umhverfisvæna orku og leysir af hólmi núverandi gashitun. Þar stendur nú yfir borun nýrrar holu, sem ætlað er að vera niðurdælingarhola. Hönnun og bygging hitaveitunnar hefur ekki bara þýtt aukin umsvif fyrir Mannvit heldur hafa fleiri íslensk fyrirtæki tekið þátt í verkefninu. Til að mynda hafa íslensk fyrirtæki selt Pannergy stýribúnað í stöðvarhús hitaveitunnar og djúpdælur í vinnsluholurnar.

Miskolc í austurhluta Ungverjalands er ein af þremur stærstu borgum landsins með um 200.000 íbúa. Áætlanir Pannergy gera ráð fyrir að í fyrsta áfanga verksins verði byggð hitaveita sem þjónar allt að 15.000 manns. Miðað við reynsluna frá Szentlörinc gætu opnast fleiri tækifæri fyrir íslensk þekkingarfyrirtæki á sviði jarðvarma við hönnun og byggingu hitaveitu í Miskolc.

Mannvit opnaði skrifstofu í Búdapest árið 2008 til að fylgja eftir verkefnum í Mið-Evrópu. Þar eru nú vel á annan tug starfsmanna, bæði íslenskir og ungverskir. Samhliða hefur Mannvit komið upp öflugu tengslaneti við þarlend þekkingarfyrirtæki. Í Ungverjalandi er hefð fyrir nýtingu jarðhita og þekking á jarðborunum er mikil í landinu vegna vatnsöflunar en þó einkum í tengslum við leit að olíu og gasi. Mannvit tvinnar saman reynslu heimamanna af staðháttum og sérþekkingu Mannvits á jarðvarmaverkefnum á Íslandi og víðar til að byggja upp miðstöð fyrir starfsemi félagsins á meginlandi Evrópu. Auk þess að sinna verkefnum í Ungverjalandi er skrifstofa Mannvits í Búdapest vel í sveit sett hvað varðar verkefni í öðrum löndum Evrópu. Þaðan þjónustar Mannvit Evrópu með verkefnum í Þýskalandi, Slóvakíu, Slóveníu, Bosníu-Hersegóvínu, Rúmeníu, Grikklandi og Tyrklandi.