Samgönguviðurkenning Reykjavíkurborgar - Mannvit.is
Frétt - 21.09.2012

Mannvit hlýtur samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar

Mannvit hlaut í gær samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar sem veitt var í fyrsta sinn við hátíðlega athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur. Viðurkenningin var veitt í tengslum við evrópsku samgönguvikuna í september.

 

Dómnefndin byggir val sitt á árangri og aðgerðum sem meðal annars draga úr umferð bifreiða og einfalda fólki að nýta sér virka ferðamáta, svo sem að hjóla, ganga og taka strætó. Í rökstuðningi dómnefndar fyrir vali sínu á Mannviti segir að fyrirtækið sé frumkvöðull á þessu sviði. Dómnefndin vísaði þar til samgöngustefnu Mannvits sem mörkuð var árið 2008 og hefur verið fylgt eftir með góðum árangri.

 

 "Framfylgd stefnunnar hefur stuðlað að vistvænna ferðamátavali starfsmanna og til marks um áhugann á vistvænum samgöngum var Mannvit sigurvegari í sínum stærðar flokki í fyrirtækjakeppninni Hjólað í vinnuna árin 2009, 2010 og 2011 í keppni um fjölda þátttökudaga miðað við fjölda starfsmanna. Markmið samgöngustefnunnar er að sýna samfélagslega ábyrgð og uppfylla ferðaþörf starfsmanna á hagkvæman og vistvænan hátt. Það er okkur heiður og mikil hvatning að hafa hlotið samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar og við höldum ötul áfram á þessari braut,"segir Drífa Sigurðardóttir starfsmannastjóri Mannvits.

 

Mannvit varð hlutskarpast í flokki stórra fyrirtækja, Alta í hópi smærri fyrirtækja og Landssamtök hjólreiðamanna hlutu einnig viðurkenningu.

 

Í dómnefndinni sátu Kristín Soffía Jónsdóttir, varformaður umhverfis- og samgönguráðs, Héðinn Svarfdal Björnsson, Embætti landlæknis, Jóna Hildur  Bjarnadóttir, ÍSÍ og Hrönn Hrafnsdóttir, verkefnisstjóri grænna skrefa í starfsemi Reykjavíkurborgar. Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi, afhenti viðurkenninguna. Sjá nánar á vef Reykjavíkurborgar