Styrkur til nýtingar jarðvarma í Ungverjalandi - Mannvit.is
Frétt - 20.12.2012

Mannvit hlýtur styrk til nýtingar jarðvarma í Ungverjalandi

Jarðvarmaverkefni sem Mannvit í Ungverjalandi hefur þróað í samstarfi við þarlenda aðila er meðal 23 grænna evrópskra orkuverkefna sem hlutu styrk samkvæmt NER300 áætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Verkefni Mannvits hlaut tæpar 40 milljónir evra, en markmið þess er að örva jarðvarmakerfi til raforkuframleiðslu í suðausturhluta Ungverjalands. Ráðgert er að vinna verkefnið á næstu árum í nánu samstarfi sérfræðinga á sviði verkfræði og jarðvísinda í Ungverjalandi og á Íslandi.


Framlag ESB til verkefnis Mannvits í Ungverjalandi nemur um 40% af heildarkostnaði verksins sem er áætlaður ríflega 100 milljónir Evra. Verkefnið hefur verið þróað í samstarfi við ungverska fyrirtækið EU-FIRE og þróunarráðuneyti Ungverjalands sem valdi verkefnið til að taka þátt í NER300 ferlinu. Í þessu ferli hefur Mannvit gegnt forystuhlutverki gagnvart Evrópusambandinu og stofnunum þess.


Afgreiðsla NER300 sjóðsins er mikilvægur áfangasigur fyrir þróun starfsemi Mannvits í Ungverjalandi sem hefur rekið dótturfélag í Búdapest frá árinu 2007. Undanfarin ár hefur Mannvit átt í sívaxandi samstarfi við fyrirtæki, sveitarfélög og stjórnvöld í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu um fjölþætta nýtingu jarðvarma til húshitunar, iðnaðar og rafmagnsframleiðslu. Um þessar mundir vinnur Mannvit að þróun rúmlega 10 jarðvarmaverkefna á svæðinu sem eru á mismunandi stigum, allt frá hugmynda- og hagkvæmnigreiningu að undirbúningi framkvæmda.

 

NER 300 áætlunin:
NER300 áætlunin er stærsti verkefnasjóður sinnar tegundar í heiminum. Markmið sjóðsins er að veita styrki til verkefna sem eru tæknilega krefjandi og styðja græna og sjálfbæra þróun í orkunýtingu í Evrópu; bæði verkefni sem nýta græna orkugjafa og verkefni sem stuðla að föngun og geymslu koltvísýrings. Áætlunin er fjármögnuð með sölu á heimildum til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Evrópusambandsins og nemur heildarfjármagn úthlutunar í fyrstu umferð 1,2 milljörðum Evra.


Örvuð
jarðvarmakerfi:
Örvuð jarðvarmakerfi nýta hita í bergi djúpt í jörðu, með því að dæla niður vatni og dæla því aftur upp heitu. Vatnið er svo nýtt til raforkuframleiðslu og stundum hitaveitu til að ná sem mestri nýtni úr heitum vökvanum, áður en honum er aftur dælt niður og þannig mynduð hringrás, þar sem varmi bergsins er nýttur. Þessi tækni er í mikilli þróun og standa vonir til að í framtíðinni auki örvuð jarðvarmakerfi möguleika á nýtingu jarðvarma í  Mið- og Austur-Evrópu. Þar er jarðefnaeldsneyti notað að mestu til raforkuframleiðslu í dag.