Dysnes - Mannvit.is
Frétt - 29.05.2013

Mannvit hluti af félagi um þróun hafnarmannvirkja á Dysnesi

Mannvit hefur undanfarið horft til framtíðarverkefna á norðurslóðum tengdum aukinni umferð skipa, olíuleit ásamt þjónustu við námavinnslu á Grænlandi. Með tilliti til mögulegrar þátttöku Íslendinga í þessari þróun hefur félagið Dysnes Þróunarfélag ehf.  verið stofnað til uppbyggingar, markaðsstarfs og kynningar á Dysnesi við Eyjafjörð sem framtíðar hafnarsvæði vegna þjónustu við námu og olíuvinnslu fyrir norðan Ísland.

Mannvit, ásamt Eimskip, Hafnasamlagi Norðurlands, Slippurinn Akureyri og Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar hafa stofnað með sér félagið. Dysnes Þróunarfélag mun koma að þróun og uppbyggingu hafnarmannvirkja á Dysnesi, sem er um 15 km norðan við Akureyri. Þar eru um 90 hektarar lands áætlaðir fyrir þessa þjónustu þar af 30 hektarar með landfyllingu. Reiknað er með að framkvæmdir hefjist í áföngum og að fyrsti áfangi hefjist að loknu umhverfismati, sem ráðist verður í. Heildarfjárfesting í svæðinu getur numið allt að 18 milljörðum á komandi árum. Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar mun sjá um daglegan rekstur félagsins og mun Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson veita því forstöðu.