Mannvit og BIM - Mannvit.is
Frétt - 18.03.2010

Mannvit og BIM

Á aðalfundi Verkfræðingafélags Íslands 17. mars 2010 hélt Pálína Gísladóttir, sviðsstjóri burðarvirkja hjá Mannviti, kynningu á reynslu Mannvits af upplýsingalíkönum mannvirkja  - BIM (Building Information Model). Mannvit hefur á undanförnum árum unnið talsvert af sinni hönnun í BIM hugbúnaði. Stærstu verkefnin eru Háskólinn í Reykjavík, Harpa við Austurbakka og gagnaver í Reykjanesbæ. Allt eru þetta stór og flókin verkefni sem kalla á ýmsar sérhæfðar lausnir sem auðveldara var að vinna með því að nota BIM við hönnunina.

BIM hugbúnaður gefur kost á hlutbundinni nálgun og færir hönnuðina nær verkinu. Hægt er að útbúa bæði lítil og stór BIM líkön. Dæmi um það fyrrnefnda gæti verið  lagnir í einbýlishús og um það síðarnefnda tugþúsundir fermetra bygging þar sem tæknikerfi, burðarvirki og arkitektúr eru sett saman í eitt líkan.

Kostir BIM eru fjölmargir. Helstu kostirnir eru að gæði hönnunargagna aukast til muna og skilningur hönnuða, verkkaupa og verktaka á verkinu eykst. Auðvelt er að koma í veg fyrir árekstra milli einstakra hönnuða. Flókin rúmfræði verður auðskilin. BIM líkan af byggingunni er notað á verkstað og meiri líkur eru á að vandamál séu leyst strax á hönnunarstigi.