Hönnun virkjana á Norðausturlandi - Mannvit.is
Frétt - 21.10.2011

Mannvit og Verkís hanna virkjanir á Norðausturlandi

Fv. Einar Mathiesen, stjórnarformaður Þeistareykja ehf., Sveinn I. Ólafsson, framkvæmdastjóri Verkís hf., Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Eyjólfur Árni Rafnsson, forstjóri Mannvits.

 

Landsvirkjun og Þeistareykir ehf. hafa undirritað samninga við verkfræðistofurnar Mannvit hf. og Verkís hf um ráðgjafarþjónustu vegna fyrirhugaðra jarðhitavirkjana í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum. Heildarfjárhæð samninga hljóðar uppá rúma 2,9 milljarða króna að meðtöldum virðisaukaskatti.  

 

„Það er fagnaðarefni að nú skuli ákveðið að ráðast í gerð jarðhitavirkjana á Norðausturlandi og við erum stolt að hafa verið valin til að vinna að þessu þjóðþrifaverkefni,“ segir Eyjólfur Árni Rafnsson, forstjóri Mannvits. „Hér er um gífurlega mikilvægt verkefni að ræða fyrir sérfræðinga í jarðvarmavirkjunum því þar munu allt að 60 sérfræðingar starfa þegar mest verður,“ segir Sveinn I. Ólafsson, framkvæmdastjóri Verkís en hann og Eyjólfur Árni undirrituðu samningana fyrir hönd fyrirtækjanna.

 

Verksamningurinn tekur til forhönnunar, gerð útboðsgagna auk verkhönnunar á allt að 90 MW virkjun í Bjarnarflagi og 90 MW virkjun á Þeistareykjum ásamt aðstoð við eftirlit með uppsetningu vél- og rafbúnaðar. Þegar verður hafist handa við að yfirfara forsendur og forhönnun en verkhönnun fyrir virkjanirnar mun síðan hefjast strax á næsta ári.  Um 60 starfsmenn Mannvits og Verkís munu koma að verkefninu þegar mest verður. Að auki koma þrír undirverktakar að verkefninu: TARK, Landslag og Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar.

 

Ef allt gengur að óskum og öll tilskilin leyfi verða veitt er gert ráð fyrir að framkvæmdir við fyrra þrep Bjarnarflagsvirkjunar hefjist strax næsta sumar (45 MW) og að gangsetning fari fram í lok árs 2014. Þá er gert ráð fyrir að framkvæmdir við Þeystareykjavirkjun hefjist seinni hluta árs 2012 og að fyrra þrep þeirrar virkjunar (45 MW) verði gangsett um mitt ár 2015 en seinna þrepið (45 MW) á seinni hluta árs 2015. 

 

Landsvirkjun og Þeistareykir ehf. hafa á síðustu tíu árum varið um 12 milljörðum króna í rannsóknir á jarðhitasvæðunum á Norðausturlandi og byggt upp mikinn þekkingargrunn vegna undirbúnings jarðgufuvirkjana þar. Í vor var rannsóknum hraðað á jarðhitasvæðum Bjarnarflags og Þeistareykja til að mæta aukinni eftirspurn orkukaupenda á svæðinu og á Landsvirkjun nú í viðræðum við fimm mögulega kaupendur að orku á svæðinu. Mati á umhverfisáhrifum 90 MW virkjunar í Bjarnarflagi og 200 MW virkjunar á Þeistareykjum er lokið og búið er að afla gufu fyrir 45 MW á hvorum stað.