Mannvit til liðs við Festa - Mannvit.is
Frétt - 09.02.2016

Mannvit til liðs við Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja

Mannvit hefur nú gengið til liðs við Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja og því orðinn aðili að samstarfsneti fyrirtækja sem vinna að samfélagsábyrgð á Íslandi. Þannig heldur Mannvit áfram að vinna með enn markvissari hætti að því að skipuleggja starfsemi sína þannig að hún hafi jákvæð áhrif á þróun samfélagsins og umhverfið.

Mannvit hefur unnið að samfélagslegri ábyrgð með margvíslegum hætti undanfarin ár. Mannvit var fyrst allra fyrirtækja á Íslandi til að innleiða samgöngustefnu og hefur einnig  innleitt umhverfisstefnu og jafnréttisstefnu. Fyrirtækið leitast við að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og fylgja lagalegum kröfum á sviði umhverfismála í hvívetna, auk þess að benda viðskiptavinum á vistvænar lausnir þar sem þess er kostur við hönnun og ráðgjöf.  Til að meta árangur umhverfisstarfsins fylgist Mannvit með skilgreindum þýðingarmiklum umhverfisþáttum og setur sér mælanleg markmið sem endurskoðuð eru árlega í þeim tilgangi að stöðugar umbætur eigi sér stað.

Festa var stofnuð í október 2011 og hefur það að markmiði að leita bestu aðferða fyrir fyrirtæki við innleiðingu á stefnu um samfélagsábyrgð, stuðla að vitundarvakningu um samfélagsábyrgð fyrirtækja og hvetja til rannsókna á viðfangsefninu í samstarfi við háskólasamfélagið.