Viðurkenning fyrir vinnuvernd - Mannvit.is
Frétt - 24.10.2012

Mannvit tilnefnt til Evrópuverðlauna fyrir vinnuvernd

Mannvit hlaut í gær  viðurkenningu Vinnueftirlitsins fyrir framúrskarandi vinnuverndarstarf á ráðstefnu í tilefni af Evrópsku vinnuverndarvikunni sem nú stendur yfir. Vinnueftirlitið tilnefndi Mannvit enn fremur fyrir Íslands hönd til Evrópuverðlauna fyrir góða starfshætti á sviði vinnuverndar í flokki fyrirtækja með fleiri en 100 starfsmenn. Þau verðlaun verða veitt vorið 2013.

 

Markmiðið með vinnuverndarvikunni er að vekja athygli fólks á ákveðnum þáttum í vinnuumhverfinu í þeim tilgangi að gera vinnustaðina heilsusamlegri og öruggari. Megin áherslan árin 2012 og 2013 er sameiginleg ábyrgð stjórnenda og starfsmanna á vinnuvernd. Stjórnendur eru hvattir til þess að veita forystu í vinnuverndarmálum og lagt er að starfsfólki að taka  virkan þátt í vinnuverndarstarfinu.

 

Við val á fyrirmyndarfyrirtæki Vinnueftirlitsins var tekið tillit til þess að Mannvit er með vottað öryggisstjórnunarkerfi samkvæmt alþjóðlega staðlinum OHSAS 18001. Þá eru í vinnuverndar- og öryggisstefnu fyrirtækisins sett fram skýr markmið um að starfsmenn hljóti ekki skaða í starfi fyrir Mannvit, að ótryggar aðstæður fyrirfinnist ekki og að allir komi heilir heim. Jafnframt er mikil áhersla lögð á bætta öryggisvitund, bæði meðal starfsfólks og viðskiptavina.

 

Þátttaka starfsfólks í eflingu öryggis og viðhorf þess til öryggisstjórnunarkerfisins skiptir miklu. Fyrirtækið leggur mikið upp úr því að starfsfólkið láti álit sitt í ljós á því sem betur má fara og einnig á því sem vel er að staðið. Ábendingum starfsmanna um öryggi, heilsu og vinnuvernd til öryggisnefndar hefur fjölgað milli ára sem er til marks um aukna vitund starfsfólks um þessi mál.

 

Mikill metnaður er hjá starfsfólki og stjórn Mannvits að vera ávallt til fyrirmyndar í vinnuvernd og öryggi, bæði í starfi og ráðgjöf til viðskiptavina. Þar skiptir miklu að starfsmenn og séu vel upplýstir, vel þjálfaðir og leysi störf sín eftir öruggum ferlum.

 

Mannvit er alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki sem veitir þjónustu á sviði verkfræði, stjórnunar, rekstrar og EPCM-verkefnastjórnunar og er hið stærsta sinnar tegundar hér á landi. Fyrirtækið er ásamt dóttur- og hlutdeildarfélögum með starfsemi í Bretlandi, Bandaríkjunum, Ungverjalandi, Þýskalandi, Noregi og Chile auk Íslands. Hjá Mannviti starfa yfir 400 sérfræðingar með breiðan þekkingargrunn. Fyrirtækið er í eigu starfsmanna og hluthafar eru á annað hundrað talsins.