Vindorka - Vindmyllur - Mannvit.is
Frétt - 28.08.2013

Mannvit vinnur mat á umhverfisáhrifum vindlunda fyrir Landsvirkjun

Mannvit og Landsvirkjun hafa undirritað samning um ráðgjafarþjónustu vegna undirbúnings að uppbyggingu á vindlundum á hraunsléttu sem kölluð er Hafið, norðan við Búrfell. Verkefni Mannvits er að framkvæma mat á umhverfisáhrifum. Á Hafinu hefur Landsvirkjun reist tvær vindmyllur í rannsóknarskyni. 

 

Mannvit vinnur verkefnið í samstarfi við Ramböll AS sem hefur  yfir 25 ára reynslu af vindmyllum og Landslag ehf. Með samningunum vill Landsvirkjun fara í frekari rannsóknir og undirbúning til þess að stuðla að markvissum vinnubrögðum og tryggja að ákvarðanir í framtíðinni verði teknar á traustum forsendum.

 

Við sama tilefni var undirritaður samningur við verkfræðistofuna Eflu um ráðgjafarþjónustu vegna verkhönnunar. Á meðfylgjandi mynd frá undirskriftinni eru séð frá vinstri; Margrét Arnardóttir, verkefnastjóri vindorku Landsvirkjunar, Árni Magnússon, framkvæmdastjóri orku hjá Mannvit, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Guðmundur Þorbjörnsson framkvæmdastjóri Eflu.

 

Rekstur vindmyllanna á Hafinu hefur gengið vel að sögn Landsvirkjunar. Aðstæður á Íslandi þykja hagstæðar þar sem vindaðstæður á landi eru svipaðar og á hafi úti og nýtingarhlutfallið talsvert yfir meðaltali á heimsvísu.

 

Nánari upplýsingar um verkefni Landsvirkjunar er að finna í frétt Landsvirkjunar