Sjálfbærnikönnun 2021 Sustainable Buildings Market Study 2021 Insight (1)
Frétt - 14.09.2021

Markaðsrannsókn á sjálfbærni á byggingarmarkaði

Meira en 90% svarenda í nýrri markaðsrannsókn Mannvit og Ramboll á byggingarmarkaði fullyrða að sjálfbærni sé mikilvæg fyrir farsælan rekstur bygginga. Jafnframt kom fram að COVID-19 hefur ekki fært fókusinn frá sjálfbærum byggingum.

 

Brúa þekkingarbilið og veita innsýn

Gerð markaðsrannsóknarinnar um sjálfbærar byggingar árið 2021 er ætlað að kortleggja sjónarmið tæplega 700 íslenskra, norrænna, breskra og þýskra hagsmunaaðila í fasteignaiðnaðinum og veitir innsýn í hvernig fasteignageirinn skynjar áskoranir og tækifæri sem tengjast sjálfbærum byggingum.

Sjá niðurstöður könnunarinnar hér (pdf)

 

Í fyrri könnunum höfum við séð hæga en stöðugt vaxandi hlutdeild þeirra sem telja sjálfbærni mikilvæga. Í könnuninni 2021 sögðu 94% þátttakenda að sjálfbærni væri mikilvæg fyrir farsælan rekstur fyrirtækja. Jafnframt kemur fram áhugaverð þróun, þar sem áherslan er ekki lengur aðallega á orkunýtni og vellíðan heldur færist yfir í efnisfræðilegri nálgun þar sem þættir eins og lífsferilshugsun, hringrásarhagkerfið og lágmörkun úrgangs skiptir sífellt meira máli. Á Íslandi virðist heilsa og vellíðan notenda þó ennþá skipta mestu máli gagnvart fasteigna- og byggingageiranum ásamt kolefnishlutleysi og áhrif gróðurhúsaloftegunda á hlýnun jarðar.

„Við erum einnig að sjá aukningu í öðrum könnunum á mikilvægi sjálfbærni í almennum rekstri fyrirtækja hjá viðskiptavinum okkar. Hugsunin um að bæta nýtingu auðlinda og góða umgengni við náttúruna hefur alltaf verið til staðar, en segja má að nú sé það orðið óumflýjanlegt að taka ekki fast á umhverfismálum“, segir Friðrik Ómarsson, markaðsstjóri Mannvits.

 

COVID-19 og fasteignaiðnaðurinn

Þegar COVID-19 braust út neyddust margir alþjóðlegir aðilar í fasteignaiðnaðinum til að einbeita sér að tafarlausum afleiðingum lokana og óttinn við langvarandi samdrátt blasti við. 87% svarenda telja að heimsfaraldurinn muni hafa áhrif á langtímamynstur og að fleiri muni vinna að heiman í framtíðinni.

Íslenski fasteignamarkaðurinn virðist hafa orðið síður fyrir barðinu á niðursveiflunni af völdum faraldursins og fasteignaverð hefur hækkað mikið undanfarin misseri. Áhrifin á vinnufyrirkomulagið á Íslandi eru kannski ekki að fullu komin fram. Svarendur á Íslandi töldu minni eftirspurn eftir skrifstofuhúsnæði ásamt þörf á að endurinnrétta skrifstofur sem helstu áhrifin af faraldrinum á fasteignamarkaðinn til framtíðar hér á landi.

 

Kolefnishlutleysi er stefnumótandi forgangsverkefni til höfuðs loftslagsáhættu

Bretland, Þýskaland og Finnland eru fremst í flokki varðandi kolefnishlutleysi í fasteignaiðnaðinum samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar 2021. 56% svarenda í Bretlandi og 40% svarenda í Finnlandi fullyrða að þeir hafi „kolefnislausar byggingar“ (e. net zero carbon buildings) í viðskiptamódelinu sína. Hins vegar benti meira en þriðjungur svarenda á að skortur á tæknilegri þekkingu væri hindrun í því að ná slíkum áætlunum. Könnunin leiddi einnig í ljós að meira en 30% svarenda bentu á skort á almennum skilningi á sjálfbærni sem hindrun fyrir innleiðingu sjálfbærni í skipulag fyrirtækja. Þá telja 57% skort á fjárhagslegum hvötum vera helstu hindrunina í innleiðingu sjálfbærni í byggingaverkefnum.

Hönnun og bygging á mannvirkjum sem viðhalda virkni sinni við breyttar aðstæður og eru sveigjanlegar (e.resilient) til framtíðar er eitthvað sem 28% svarenda töldu mikilvægt. Í fyrsta skipti í útgáfu markaðsrannsóknarinnar um sjálfbæra byggingar var sveigjanleiki meðal þriggja efstu eiginleikanna sem tengjast sjálfbærum byggingum, sem bendir til þess að mikilvægi framtíðarmöguleika í hönnun bygginga og viðnámi við áhrifum loftslagsbreytinga vaxi um hrygg í greininni.

„Mikilvægustu atriðin þegar kemur að sjálfbærni á íslenskum byggingamarkaði eru heilsa og vellíðan, lífsferilsnálgun og kolefnishlutleysi samkvæmt þátttakendum í könnuninni. Þetta eru mikilvægar niðurstöður fyrir ráðgjafa því þær leiðbeina okkur varðandi áherslur í okkar verkefnum”, segir Sandra Rán Ásgrímsdóttir, sjálfbærniverkfræðingur hjá Mannvit.

 

Skortur á sniðmáti fyrir aðferðir

Könnun okkar sýnir að breyting er að eiga sér stað í hugmyndafræði sjálfbærni. Meira en helmingur aðspurðra íhugar hringrásarkerfið í verkefnum sínum, annað hvort með því að fella meginreglur hringrásar í framkvæmd verkefnisins eða setja slíkar reglur inn í útboðsgögn. Til þess að hringrásarhugsunin komist betur inn í fasteigna- og byggingargeirann, sögðu 42% svarenda að reglugerð væri nauðsynleg.

 

Vottunarkerfi og framtíðarþróun

Sjálfbærni snýst um heildræna nálgun, meta þarf hvert verkefni fyrir sig til þess að ná bestu niðurstöðunni. Vottanir eru gátlisti fyrir hönnuði, eigendur og framkvæmdaraðila til þess að ná sem bestri niðurstöðu í hverju verkefni. Svarendur voru beðnir um að gefa upp hvaða vottunarkerfi og sjálfbærnitól þeir þekkja, hafa notað eða ætla að nota. Svörin sýna mikla fjölbreytni, mjög háð upprunalandi, en í heildina er BREEAM áfram mest notaða vottunarkerfið samkvæmt könnuninni 2021. Á Íslandi eru BREEAM og Svansvottun algengustu vottanirnar.

Sjá niðurstöður könnunarinnar hér (pdf)