Hugbúnaður og kerfisfræði - Mannvit.is
Frétt - 03.07.2012

Mat á stærð jarðhitasvæðis fyrir NGP í Kaliforníu

Nýverið vann Mannvit mat á stærð jarðhitasvæðis í Imperial Valley í Kaliforníu fyrir Nevada Geothermal Power (NGP). Matið var unnið samkvæmt kanadíska jarðhitastaðlinum, en Mannvit er eitt fárra ráðgjafarfyrirtækja sem hefur leyfi til þess að gefa út slíkar skýrslur.

 

Nevada Geothermal Power tilkynnti nýverið að lokið væri yfirgripsmiklu mati óháðs aðila á jarðhitasvæðinu New Truckhaven, sem staðsett er í Imperial dalnum í suðurhluta Kaliforníufylkis. Mannvit sá um það mat. Niðurstaða þess er að mögulegt er að framleiða yfir 27 megavött raforku í tvívökvavirkjun á svæðinu. NGP, sem er á hlutabréfamarkaði í Kanada, sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu þegar jarðhitamatið var gefið út.

 

Í fréttatilkynningu frá NGP segir að mat Mannvits hafi tekið til allra tiltækra gagna um jarðfræði, efnafræði og jarðeðlisfræði sem safnað hefur verið saman úr rannsóknum sem framkvæmdar voru af fyrri eigendum svæðisins. Jarðhitasvæðið í Truckhaven er flokkað sem „indicated geothermal resource“ í samræmi við kanadíska jarðhitastaðalinn.

 

Nevada Geothermal Power Inc. (http://www.nevadageothermal.com) er orkufyrirtæki sem framleiðir raforku með jarðhita í Bandaríkjunum. Félagið á og rekur 49.5 MW jarðhitavirkjun í Nevada. Félagið á jafnframt hlut í sex öðrum jarðhitasvæðum í Nevada,- Oregon- og Kaliforníufylki.