Metanstöð á Akureyri - Mannvit.is
Frétt - 25.08.2014

Metanstöð á Akureyri

Framkvæmdum er lokið við metanstöð Norðurorku á Akureyri og lokaprófanir standa yfir. Stöðin verður formlega opnuð á næstu dögum. Á meðfylgjandi mynd má sjá metanáfyllingu á fyrsta bílinn á fimmtudaginn 21.ágúst og flutningabíl Landflutninga á föstudeginum 22.ágúst.

 

Mannvit hefur komið að uppsetningu á aðstöðu fyrir vinnslu og afgreiðslu metans úr hauggasi fyrir þessa nýju metanstöð Norðurorku en starfsemin fer fram á urðunarstaðnum, aflögðum sorphaug í Glerárdal. Þar er gert ráð fyrir að vinnsla geti numið 600.000 Nm3 af metangasi á ári. Gasframleiðsla verður í höndum Norðurorku hf. en Olís hf. sér um smásölu metangassins. „Þegar stöðin hefur framleiðslu geta eigendur metanbíla ferðast á milli Akureyrar og Reykjavíkur á metani einu saman. Við erum líka að minnka kolefnisspor okkar um 11.000 tonn af koltvísýringi á ári“ segir Guðmundur Haukur Sigurðsson, verkefnisstjóri á Akureyri.

 

Margvíslega verkefni í höndum Mannvits

Verkefni Mannvits fólu m.a. í sér áætlun á hauggasútstreymi og þar með metanmyndun í sorphaugnum. Hagkvæmnimat fyrir gassöfnun og vinnslu metansins var unnið auk þess sem nýtingarmöguleikar þess í ýmsa starfsemi voru kortlagðir. Gerðar voru tilraunaboranir og afköst tilraunaholanna könnuð til að leggja mat á áreiðanleika spálíkans fyrir vinnsluna. Mannvit kom einnig að vali á tæknilausnum og hönnun hauggassöfnunarkerfis, dælustöðvar, lagna í jörð og lóða. Einnig sinnti Mannvit tæknilegri ráðgjöf og hönnun vegna aðkeyptra tæknilausna (þ.e. hreinsistöðvar og áfyllistöðvar). Mannvit vann ennfremur útboðsgögn vegna jarðvinnu og lagnavinnu og sinnti ráðgjöf vegna leyfismála starfseminnar.