GunnarSverrir2016_web.jpg
Frétt - 26.04.2022

Þetta er mikill styrkur fyrir iðnaðinn

„Sérfræðingar Mannvits hafa sinnt öllum helstu verkþáttum við undirbúning, byggingu og ráðgjöf við rekstur tengdan áliðnaðinum á Íslandi. Það er mikill styrkur fyrir iðnaðinn að tekist hefur að byggja upp sérfræðiþekkingu á þessu sviði hér á landi,“ segir Gunnar Sverrir Gunnarsson sviðsstjóri véla og iðnaðar hjá Mannviti í viðtali í Morgunblaðinu á dögunum. Viðtalið sem tengist umfjöllum um nýsköpun og mikilvægi iðnaðar á Íslandi er að finna hér í heild sinni:

Á íslenskan mælikvarða er verkfræðiþjónusta í álgeiranum nokkuð umfangsmikil og þar er sífellt verið að endurnýja og bæta við tækjabúnaði til að halda verksmiðjum áfram í fremstu röð á heimsvísu,“ segir Gunnar Sverrir, en sérfræðingar Mannvits hafa sinnt öllum helstu verkþáttum við undirbúning, byggingu og ráðgjöf við rekstur tengdan áliðnaðinum á Íslandi. „Þar má nefna mat á umhverfisáhrifum, umhverfisrannsóknir og umhverfisvöktun, hagkvæmniathuganir, áætlanagerð, undirbúningsrannsóknir, hönnun mannvirkja og búnaðar. Sérfræðingar okkar leysa jafnframt fjölbreytt verkefni í vélahönnun, stýringum, þróun tæknilausna og á sviði verkefnastjórnunar og innkaupa í álgeiranum. Mannvit hefur þjónustað öll álverin frá uppbyggingu þeirra og teljum við það mikinn styrk fyrir iðnaðinn að tekist hefur að byggja upp sérfræðiþekkingu á þessu sviði hér á landi.“

Uppbygging álvera

Beðinn um að nefna dæmi hefur Gunnar þau nokkur: „Meðal stærri nýframkvæmda er uppbygging Fjarðaáls á Reyðarfirði sem unnin var í samvinnu við Bechtel á árunum 2003- 2007 (EPCm), uppbygging álvers Norðuráls á Grundartanga sem unnin var í fimm áföngum á tímabilinu 1996-2007, þar sem Mannvit ásamt samstarfsaðilum gegndi hlutverki EPCm-ráðgjafa, og breytingar á álveri ÍSAL í Straumsvík á árunum 2007-2014 sem jafnframt var unnið sem EPCm-verkefni með samstarfsaðilum okkar. Bygging álvers í Helguvík sem hætt var við var einnig unnið í EPCm. Einnig hafa komið upp stór verkefni á rekstrartíma þessara álvera eins og til dæmis endunýjun afriðla hjá Fjarðaáli og nýr afriðill.“

Þekkingin nýtist vel

Aðspurður hvort öll þessi þekking hafi nýst til sóknar út fyrir landsteinana segir Gunnar að hún hafi svo sannarlega gert það. „Þessi þekking hefur nýst okkur vel og má meðal annars nefna verkefni í tengslum við endurnýjun á álveri í Svíþóð (KUBAL) og uppbyggingu nýrrar skautsmiðju fyrir álverið í Karmøy í Noregi sem er í eigu Norsk Hydro. Bæði verkefnin voru stór á íslenskan mælikvarða. Verkefnið í Karmøy er líklega stærsta einstaka verkefnið sem íslenskir ráðgjafar hafa unnið í álgeiranum utan landsteinanna, um er að ræða verkfræðiþjónustu upp á um það bil einn milljarð króna. Einnig hafa verið unnin minni verkefni meðal annars í Noregi, Dúbaí, Sádi-Arabíu, Katar og víðar.“

Spennandi tímar fram undan Gunnar talar um að þó sé fyrirtækið mismikið að þjónusta álverin en í dag þjónusti fyrirtækið öll álverin. „Það er ekki mikið um stórframkvæmdir eins og er en við erum þó í einu stóru verkefni fyrir Norðurál en þar standa nú yfir framkvæmdir við nýjan steypuskála. Mannvit er hluti af ráðgjafateyminu sem vinnur að því verkefni,“ segir Gunnar og bætir við að það séu alls kyns sóknarfæri í áliðnaðinum til framtíðar.

„Þó svo álverin hér á landi séu að framleiða mjög grænt ál er ljóst að þessi fyrirtæki hafa mikinn metnað fyrir því að gera enn betur og er þá til dæmis horft til aukinnar hreinsunar á útblæstri og jafnvel nýtingar eða bindingar á CO2. Það er einnig ljóst að álverin horfa mikið til aukinnar þróunar á sviði stýritækni, sjálfvirkni, snjallvæðingar og fleira. Það eru því spennandi tímar fram undan og við hjá Mannviti teljum okkur geta lagt mikið af mörkum í þessari vegferð.“