Ný vinnslulína í Skálabergi RE 7 - Mannvit.is
Frétt - 07.05.2014

Ný vinnslulína í Skálabergi RE 7

Útgerðarfélagið Brim hf stendur þessa dagana fyrir því að endurnýja að fullu vinnslu-/frystilínu um borð í skuttogaranum Skálabergi RE 7.  Skipið er 74,5 metra langt, 16 metra breitt og er 3.435 brúttó­tonn.  Það var smíðað árið 2003 í Noregi  en Brim hf keypti það frá Argentínu haustið 2012 og kom skipið hingað til lands fyrir ári síðan.

Með breytingunum er sett upp frystilína fyrir uppsjávarfisk, einkum makríl, og verður frystigeta allt að 220 tonn á sólarhring eftir breytingar.  Breytingarnar fela m.a. í sér uppsetningu á nýju sogkerfi úr fiskmóttöku og flokkunarkörum, nýrri flokkunarlínu, 23 nýjum frystitækjum, flutningskerfi frá flokkun að frystum og frá frystum að pökkunarvélum, tvær plast- og pökkunarvélar ásamt færiböndum í lest.

Mannvit kemur að verkinu með verkefnisstjórn, verkstýringu, eftirliti með uppsetningu, samningagerð við verktaka og rekstri verksins fyrir hönd Brims hf.   Uppsetning á búnaði hófst í byrjun mars en stefnt er að því að ljúka verkinu á sjómannadag og er unnið samfleytt í skipinu dag og nótt til að ná því markmiði.  Um 80 manns koma að verkinu frá um 20 verktökum og undirverktökum.