Nýr aðalvöllur og áhorfendastúka - Mannvit.is
Frétt - 23.08.2010

Nýr aðalvöllur og áhorfendastúka tekin í notkun á Selfossi

Mynd: Torfi tekur við viðurkenningu frá Eyþóri Arnalds fyrir hönd Mannvits. Mynd sunnlenska.is

Þann 19 ágúst sl. voru nýr aðalvöllur og áhorfendastúka knattspyrnufélagsins á Selfossi tekin í notkun.  Undanfarin ár hefur Mannvit unnið töluvert með Ungmennafélagi Selfyssinga við gerð nýrrar glæsilegrar íþróttaaðstöðu á Selfossi.

Að lokinni vígslu vallarins á fimmtudag, tóku Selfyssingar á móti Keflavík og kunnu greinilega vel við sig á nýja vellinum, unnu leikinn 3-2.

Fyrir þrem árum var tekinn í notkun nýr gervigrasvöllur á sama svæði og stutt er í að nýr frjálsíþróttavöllur líti dagsins ljós.

Öll verkfræðihönnun svæðisins hefur verið í höndum verkfræðinga Mannvits og til hefur orðið mikil sérfræðiþekking í hönnun íþróttavalla á starfsstöðinni á Selfossi.  Sem dæmi má taka að settar voru saman og rannsakaðar tilraunablöndur til að hægt væri að fá sem besta blöndu sands og moldar í gróðurlag undir völlinn.  Allar rannsóknir voru unnar á Rannsóknarstofu Mannvits.