IMG 8955 2
Frétt - 17.11.2023

Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst - Mannvit er stoltur styrktaraðili björgunarsveitanna

Eitt mikilvægasta fjáröflunarátak björgunarsveitanna er salan á neyðarkalli sem fer fram árlega um allt land. Fyrsti neyðarkallinn kom fram á sjónarsviðið árið 2006 og er þetta því í 18. skiptið sem björgunarsveitirnar bjóða almenningi að styrkja umfangsmikið sjálfboðastarf þeirra með þessum hætti sem skil­ar um fjórðungi allra tekna sveit­anna.

Í ár styrkti Mannvit þrjár björgunarsveitir með kaupum á stórum neyðarkalli; Hjálparsveit skáta í Kópavogi, hjálparsveitina Tintron í Grímsnesi og björgunarsveitina Garðar í Húsavík.

Með kaupum á neyðarkallinum taka fyrirtæki og almenningur þátt í að fjármagna starf hjálparsveitanna og gerir þeim þannig kleift að halda þeirra mikilvæga og göfuga starfi gangandi.

Hagnaður af sölunni rennur óskiptur til björgunarsveita og slysavarnadeilda og er hann notaður til þess að efla rekstur og búnað sveitanna, styrkja þjálfun björgunarsveitafólks landsins og starfið í heild sinni. Björgunarsveitafólk vinnur óeigingjarnt starf í þágu almennings og þegar neyðarkall berst þurfa sveitirnar að bregðast hratt og örugglega við með allan sinn mannskap, búnað, tækni og þekkingu.

Örn Guðmundsson, forstjóri Mannvits, tekur hér við neyðarkallinum frá Helgu Maríu Adolfsdóttur, sem starfar hjá Mannviti og einnig í björgunarsveit skáta í Kópavogi.

Neyðarkallinn í ár er aðgerðastjórnandi sem mikið hefur reynt á í eldgosum síðustu ára.