Sandra Rán Sjálfbærni Mannvit.jpg
Frétt - 20.09.2019

Neytendur setja auknar kröfur á sjávarútveg

„Við höfum vakið á því athygli hversu mikilvægt er að tryggja sjálfbæra nýtingu auðlindar okkar í hafinu en til að styrkja enn betur stoðir hennar og söluhæfni er mikilvægt að huga að sjálfbærni í allri virðiskeðju sjávarútvegsins, frá veiðum til sölu á afurðinni,“ segir Sandra Rán Ásgrímsdóttir sjálfbærniverkfræðingur hjá Mannviti í viðtali við Sóknarfæri, sem kom út í dag. Fyrirtækið hefur um árabil komið að hönnun mannvirkja í sjávarútvegi, fiskvinnslum og fiskmjölsverksmiðjum svo dæmi séu tekin. Því til viðbótar hafa sérfræðingar Mannvits í ríkara mæli komið að þáttum er lúta að umhverfis- og öryggismálum hin síðari ár. Sjávarútvegur 2019 einnig nefnt Iceland Fishing Expo 2019 verður haldin dagana 25.–27. september í Laugardalshöll. Við bjóðum gestum að hitta okkur á bás númer B32 og kynna sér þjónustu Mannvits við íslenskan sjávarútveg.

Sandra segir það færast í vöxt að sjávarútvegsfyrirtæki hugi að  sjálfbærni og vottunum í greininni. „Umhverfisvitund neytenda hefur aukist ár frá ári og mun halda áfram að aukast á komandi árum. Þeir sem starfa innan sjávarútvegsins finna fyrir þessari bylgju, neytandinn er mun forvitnari en áður um uppruna og sögu þeirrar vöru sem hann er að neyta og í beinu hlutfalli af því eykst krafan á framúrskarandi hegðun fyrirtækja þegar kemur að umhverfis- og samfélagsmálum,“ segir hún. „Frá því fiskurinn er veiddur og þar til hann lendir á borði neytandans eru mörg skref og það þarf að huga að þeim öllum.“

Endurvinnsla og endurnýting á alltaf við

Sandra segir að sjávarútvegur hafi náð gríðarlegum árangri á undanförnum árum varðandi m.a. bætta eldsneytisnýtingu og þá hafi hann dregið mjög úr kolefnisspori sínu. „Það má hins vegar alltaf gera betur og það eru mörg tækifæri framundan í atvinnugreininni til að stíga enn framar þegar að þessum málum, umhverfismálum og sjálfbærni kemur. Við bendum á að atriði eins og endurvinnsla og endurnýting eigi alltaf við,“ segir Sandra.  Hún segir Mannvit hafa þjónustað sjávarútveg í áraraðir, hannað m.a. mannvirki og sérfræðingarnir séu vel í stakk búnir til að taka til hendinni varðandi ferla en yfirleitt háttaði þannig til að ýmislegt megi bæta eða færa þar til betri vegar.

Fjölbreyttar leiðir í boði

„Það er í boði mjög fjölbreyttar leiðir fyrir fyrirtæki og þá sem starfa í sjávarútvegi til að skilgreina og kortleggja helstu tækifæri sín til aukinnar sjálfbærni. Við hjá Mannvit höfum aðstoðað fyrirtæki við greiningu með vinnustofum í tengslum við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Vinnustofurnar taka mið af því að virkja sem flest starfsfólk og tryggja þannig að samstaða og  meðvitund sé til staðar innan fyrirtæksins til þess að leggja sitt af mörkum til sjálfbærara samfélags,“ segir Sandra.

Sandra segir að virk umhverfis- og öryggisstjórnun sé liður í því að draga úr sóun og ófyrirséðum kostnaði vegna umhverfisslysa eða annars konar slysahættu. Mannviti hafi langa og mikla reynslu a því sviði og til staðar séu fjölmörg vottunarkerfi sem grípa megi til, en þau byggist öll upp á virkri gæðastjórnun sem fléttist saman við umhverfis- og öryggisábyrgð. Vottanir eru sífellt að verða mikilvægara markaðstækifæri á erlendum mörkuðum fyrir íslenskar fiskafurðir.

Viðtalið er að finna hér í vefútgáfu Sóknarfæri. 

Mynd: Sandra Rán Ásgrímsdóttir sjálfbærni verkfræðingur hjá Mannvit sat fyrir svörum hjá Sóknarfæri.