Norrænu Lýsingarhönnunarverðlaunin 2020 Mannvit.Is
Frétt - 18.05.2020

Norrænu lýsingarhönnunarverðlaunin

Gamla steinbryggjan, lýsingarhönnunarverkefni fyrir Reykjavíkurborg í Tryggvagötu er tilnefnt til Norrænu lýsingarhönnunarverðlaunanna. Andri Garðar Reynisson lýsingarhönnuður hjá Mannviti á heiðurinn af lýsingarhönnuninni en aðrir hönnuðir og samstarfsaðilar voru Landmótun landslagsarkitektar, verktakar voru Lóðaþjónustan. Þess má geta að verkefnið fékk Íslensku lýsingarverðlaunin 2020 fyrir lýsingarverkefni utanhúss á dögunum.

Þann 20.maí í næstu viku verður svo tilkynnt um hver hlýtur verðlaunin. Viðburðinum verður að þessu sinni vegna samkomubanna og ferðatakmarkanna streymt beint á Facebook síðu Nordic lighting design awards frá Brussel þar sem formaður dómnefndar, Ourania Georgoutsakou ritari Lighting Europe samtakanna mun upplýsa um vinningshafann. Viðburðurinn hefst kl.10:00 á íslenskum tíma (12:00 í Brussel GMT+2).

Hugmyndin að verkefninu kom til þegar gamla Steinbryggjan kom í ljós þegar framkvæmdir við Tryggvagötu voru töluvert á veg komnar. Í ljós kom að gamla bryggjan reyndist ótrúlega heil og ákvað Landmótun, í samráði við Reykjavíkurborg og Mannvit að innfella þessu sögufrægu bryggju inn í þáverandi hönnun á svæðinu.

Lýsingarhönnunin

Við hönnun lýsingar á svæðinu er borinn virðing fyrir gömlu bryggjunni og yfirborði hennar haldið óupplýstu að mestu. Hófstillt, dimmanleg lýsing umkringir bryggjuna og er hún að mestu falin í bekkjum, handriðum og veggjum ásamt því að sérhannaðir lampar vaka yfir bryggjunni. Umhverfi svæðisins myndar þannig jafnvægi við annars óupplýsta bryggju.

Hönnun svæðisins og lýsing gömlu Steinbryggjunnar eru ein heild og ber að líta á hana sem slíka. Hún er samspil gamalla og nýrra tíma. Í stað þess að gleyma því liðna er gömlu bryggjunni fagnað með umgjörð og ljósi. Hún virkar einföld í sniði, liggur vel í umhverfi sínu og kallar ekki á athygli, en þegar staldrað er við horft í kringum sig má finna í gegnum hönnun og lýsingu ótal atriði sem vísa í sögu svæðisins og næsta umhverfi.

Nánar aðrar tilnefningar til Norrænu lýsingarhönnunarverðlaunanna 2020.