
Hellisheiðarvirkjun verði sporlaus
Ný gasföngunarstöð við Hellisheiðarvirkjun lítur dagsins ljós en það voru Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix og Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku Náttúrunnar, sem tóku fyrstu skóflustunguna þann 30. júní. Gasföngunarstöðin mun bera heitið Steingerður en með opnun hennar verður nær allt koldíoxíð og brennisteinsvetni fangað frá virkjuninni og því fargað.
Í fréttatilkynningu kemur fram að skóflustungan marki upphaf framkvæmda í Silfurbergs-verkefninu, samstarfsverkefni Carbfix og Orku náttúrunnar, sem snýr að föngun og förgun á CO2 og H2S losun virkjunarinnar. Markmiðið er að Steingerður komist í gagnið árið 2025. Þá mun Hellisheiðarvirkjun þar með verða nær sporlaus, fyrst jarðvarmavirkjana á heimsvísu.
Hlutverk Mannvits er á sviði kerfishönnunar ásamt hönnun á þvottaturni sem blandar óþéttanlegum gösum við þéttivatn frá virkjuninni, fullnaðarhönnun burðarvirkja, rafbúnaðar og holutoppsbúnaðar fyrir niðurdælingarholur, lagnahönnun, fyrirkomulag vélbúnaðar, prófanir og gangsetning.