Ráðgjöf í Kenya - Mannvit.is
Frétt - 24.08.2011

Ráðgjöf í Kenya

Íslensku ráðgjafarfyrirtækin Mannvit, ISOR, Vatnaskil og Verkís gerðu nýlega samning við Kenya Electricity, KenGen, í Kenya um að endurmeta afkastagetu Olkaria jarðhitasvæðisins og gera hagkvæmniathugun á fullnýtingu svæðisins. Samningurinn kemur í kjölfar alþjóðlegs útboðs sem ráðgjafahópurinn vann.


Olkaria svæðið er í þjóðgarði í sigdalnum norðvestur af Nairobi við Naivasha vatnið.  Nýting svæðisins hófst fyrir meira en þremur áratugum, m.a. með ráðgjöf frá Íslandi og þegar hefur verið virkjað þarna um 200 MW afl í þremur rafstöðvum.  Um þessar mundir eru í undirbúningi tvær 140 MW virkjanir á svæðinu og KenGen vonast til að í heild sé unnt að virkja þarna rúm 1000 MW.  Til samanburðar er afl Hellisheiðarvirkjunar um 300 MW.

 

Vatnaskil og ISOR sjá um gerð reiknilíkans til að herma hegðun jarðhitakerfisins og meta þannig  afkastagetu svæðisins m.t.t. til framtíðarnýtingar. Mannvit og Verkís annast tæknilega úttekt á núverandi virkjunum og gerð  áætlana um kostnað og hagkvæmni nýrra virkjana sem og könnun á umhverfisáhrifum.  Samstarfsaðili í Kenya er ráðgjafarfyrirtækið Armstrong and Duncan.  Verkið er hafið og mun taka tæplega eitt ár í vinnslu.  Nýting fleiri jarðhitasvæða er í undirbúningi í Kenya og fyrirtækin fylgjast grannt með þeirri þróun. 


Á meðfylgjandi mynd eru Sigurður Arnalds, Mannviti, Guðni Axelsson, ISOR og Lárus Hólm, Vatnaskilum við undirritun samningsins.  Þá fylgja tvær myndir af svæðinu og eins og sjá má er mikið umleikis en þarna fer saman rekstur þjóðgarðs og virkjana.