Búrfellslundur vindmyllur - Mannvit.is
Frétt - 13.10.2015

Rafræn frummatsskýrsla Búrfellslundar

Landsvirkjun fyrirhugar uppbyggingu vindmyllugarðs ofan við Búrfell í Búrfellslundi. Unnið hefur verið að rannsóknum og mati á umhverfisáhrifum um nokkurt skeið og liggja helstu niðurstöður nú fyrir í frummatsskýrslu og með rafrænum hætti á netinu.

Markmið Landsvirkjunar er að vinna að matinu á gagnsæjan hátt til þess að stuðla að opinni umræðu og auðvelda hagsmunaaðilum, fagstofnunum og almenningi að kynna sér verkefnið og koma á framfæri athugasemdum. Með það fyrir augum ákvað Landsvirkjun að setja skýrsluna jafnframt fram með rafrænum hætti, en það er í fyrsta skipti sem slíkt er gert í mati á umhverfisáhrifum á Íslandi. Vefútgáfa matsskýrslu Landsvirkjunar er að finna hér. Rafræna skýrslan sýnir á mjög myndrænan hátt hver umhverfisáhrif vindlundarins eru á mismunandi þætti sem til skoðunar eru. Landsvirkjun rekur tvær vindmyllur við Búrfell í rannsóknarskyni sem ná nýtingarhlutfalli sem er með því hæsta sem gerist á heimsvísu.

Mannvit er ráðgjafi Landsvirkjunar í mati á umhverfisáhrifum Búrfellslundar og kom einnig að nokkrum sérfræðiathugunum sem unnar voru í tengslum við umhverfismatið m.a. hljóðvist, landslag og ásýnd. Jafnframt sá Mannvit um framsetningu rafræns hluta matsskýrslunnar.

Skipulagsstofnun auglýsir skýrsluna miðvikudaginn 14. október og er frestur til athugasemda til Skipulagsstofnunar 6 vikur frá þeim degi.