Digital Communications Awards - Mannvit.is
Frétt - 30.09.2016

Rafræn skýrsla Búrfellslundar hlýtur tvenn alþjóðleg verðlaun

Rafrænt umhverfismat Landsvirkjunar fyrir Búrfellslund vann til tvennra verðlauna á Stafrænu samskiptaverðlaununum, Digital Communications Awards, sem afhent voru við hátíðlega athöfn í Berlín í gærkvöldi. Verðlaunin hlaut Landsvirkjun í flokkunum skýrsla og stafræn framsetning. Digital Communication Awards er alþjóðleg keppni sem verðlaunar það besta úr heimi rafrænnar miðlunar og samskipta. Verðlaun eru veitt í 35 flokkum, allt frá verkefnum á samfélagsmiðlum til stærri rafrænna útgáfna. Í dómnefnd sitja yfir 40 sérfræðingar og háskólamenn sem leitast við að skoða alla þætti rafrænna miðlunarverkefna og verðlauna þau sem skarað hafa fram úr í hverjum flokki. Landsvirkjun, J&L, Skapalón og Mannvit unnu rafræna matið, sem er að finna hérhttp://burfellslundur.landsvirkjun.is/. Mannvit er ráðgjafi Landsvirkjunar í mati á umhverfisáhrifum Búrfellslundar og kom einnig að nokkrum sérfræðiathugunum sem unnar voru í tengslum við umhverfismatið m.a. hljóðvist, landslag og ásýnd. Jafnframt sá Mannvit um framsetningu rafræns hluta matsskýrslunnar.

Bakgrunnur verkefnisins er sá að Landsvirkjun fyrirhugar uppbyggingu vindmyllugarðs ofan við Búrfell í Búrfellslundi. Unnið var að rannsóknum og mati á umhverfisáhrifum. Landsvirkjun ákvað að kynna helstu niðurstöður frummatsskýrslunar með rafrænum hætti á netinu en það er í fyrsta skipti sem slíkt er gert í mati á umhverfisáhrifum á Íslandi. Markmið Landsvirkjunar er að vinna að matinu á gagnsæjan hátt til þess að stuðla að opinni umræðu og auðvelda hagsmunaaðilum, fagstofnunum og almenningi að kynna sér verkefnið og koma á framfæri athugasemdum. Rafræna skýrslan sýnir á mjög myndrænan hátt hver umhverfisáhrif vindlundarins eru á mismunandi þætti sem til skoðunar eru. Landsvirkjun rekur tvær vindmyllur við Búrfell í rannsóknarskyni sem ná nýtingarhlutfalli sem er með því hæsta sem gerist á heimsvísu.