Rannsóknarstofa Á Byggingarefnum
Frétt - 23.02.2021

„Rannsóknir á byggingarefnum lykilatriði"

Mannvit rekur rannsóknarstofu sem er vel tækjum búin til að þjóna öllum sviðum mannvirkjagerðar. Prófin sem rannsóknarstofan gerir tryggja að byggingarefni standist kröfur um öryggi, endingu og gæði" segir Þorbjörg Hólmgeirsdóttir, fagstjóri rannsóknarstofu Mannvits í viðtali í Fréttablaðinu í dag.

Jafnframt kemur fram að „Verkfræðistofan Mannvit hefur í nærri þrjá áratugi starfrækt prófunar- og rannsóknarstofu. Þar starfar hópur sérfræðinga og tæknifólks með áralanga reynslu og þjálfun við ýmis konar rannsóknir og prófanir á sviðum steinsteypu, sands og malar sem og prófunum á jarðefni, bergi og stáli, auk þess að bjóða upp á sérfræðimat og ráðgjöf við túlkun segir Þorbjörg Hólmgeirsdóttir, fagstjóri rannsóknarstofu Mannvits. Einnig eru í boði þjöppupróf en þá mætir rannsóknarfólk á staðinn og mælir þjöppun í fyllingum eða púðum undir byggingar og önnur mannvirki. Margar þessar prófanir eru lögbundnar prófanir á byggingarefnum."

Lögbundnar prófanir

„Það er líklegt að almenningur tengi mest við prófanir sem eru gerðar í tengslum við húsbyggingar, þá helst prófanir á aðalefnunum í steypunni, nefnilega á sandi, möl og sementi og svo að sjálfsögðu á steinsteypunni sjálfri. Við prófum ferska steypu og við getum líka tekið sýni úr eldri steypu og gert margvíslegar prófanir til að meta ástand hennar.“ Aðrar prófanir sem tengjast húsbyggingum eru þjöppupróf á púða undir plötu til að athuga hvort þjöppun standist kröfur og prófun á togstyrk steypustyrktarjárns.

Á rannsóknarstofunni eru einnig gerðar prófanir fyrir framleiðendur sands, malar og steinsteypu þannig að þeir geti fylgst með vörunni á framleiðslutíma bætir Þorbjörg við. Þær prófanir eru m.a. notaðar til að CE merkja efnið en það er lögbundin krafa á flestum byggingavörum. „Á byggingartíma mannvirkja og við vegagerð er algengt að verktakar og eftirlitsaðilar komi með sýni af steinsteypu, sandi og möl til að fylgjast með eiginleikum efnisins sem fer í mannvirkin. Við þjónum í raun verktökum, hönnuðum, eftirlitsaðilum, framleiðendum og einstaklingum.“

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Steinsteypa er framleidd í nokkrum styrkleikaflokkum og fylgjast þarf reglubundið með steypuframleiðslu og -vinnu til að tryggja að þessar kröfur séu uppfylltar. „Alkalívirkni var mikið vandamál á áttunda áratugnum þegar nýleg hús grotnuðu niður en með stífum kröfum og réttri efnisnotkun var hægt að kveða þann draug niður. Alkalívirknin er hins vegar eiginleiki sem hverfur ekki svo fylgst er með henni og gripið til fyrirbyggjandi aðgerða eins og þörf er á.“

Starfsfólk rannsóknarstofunnar gerir líka sértækari prófanir sem eru notaðar til að meta sig jarðvegs undan álagi segir Þorbjörg. „Fólk tengir örugglega við Norðurmýrina þar sem steyptar girðingar standa langt fyrir ofan garðana eða hæðir og lægðir á vegum og götum eins og í Skeifunni. Ef sigspár liggja fyrir er hægt að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til draga úr líkum á sigi og þeim skemmdum og kostnaði sem fylgir viðgerðum ef ekkert er að gert.“

Samfélagsábyrgð og umhverfismál

Fylgt er eftir alþjóðlegum stöðlum og verklagi við allar prófanir. „Sjálfbærni og viðmið Sameinuðu þjóðanna um samfélagslega ábyrgð skipta okkur miklu máli. Með prófunum erum við ekki aðeins að tryggja að byggingarefni standist kröfur um endingu og gæði. Það er ekki síður mikilvægt að hægt er að nota niðurstöður til að auðvelda skynsamlega nýtingu á auðlindum sem eru samfélaginu okkar afskaplega nauðsynlegar en eru um leið takmarkaðar.“

Hún segir það vera skyldu okkar að fara vel með þær auðlindir sem við höfum aðgang að. „Jafnframt að leitað sé í auðlindir í næsta nágrenni framkvæmda til að draga úr akstri og tilheyrandi neikvæðum umhverfisáhrifum og óþarfa álagi og sliti á vegakerfinu. Allar aðgerðir sem við sem samfélag grípum til í þessum tilgangi eru jákvæðar fyrir framtíðina.“

Nánari upplýsingar um rannsóknarstofuna má finna hér.