Hugfimi Og Reon
Frétt - 19.03.2021

Reon kaupir hlut Mannvits í Hugfimi

Hugbúnaðarfyrirtækið Reon hefur keypt 70% hlut Mannvits í gagnavinnslufyrirtækinu Hugfimi, sem sérhæfir sig í öflun, vinnslu og framsetningu gagna og hefur undanfarin ár unnið mikið fyrir orkuvinnslufyrirtæki. 

Hugfimi var stofnað í ársbyrjun 2015 af Bjarka Ásbjarnarsyni og Helga Erni Gylfasyni ásamt Mannviti. Félagið var upphaflega stofnað í kringum þróun á eigna yfirlits kerfinu EYK, sem er veflægt gagnavinnslukerfi sem auðveldar fyrirtækjum utanumhald  eignasafna og greiningu gagna þeim tengdum. Í dag er félagið með starfsstöðvar í Reykjavík og á Akureyri og þróar og þjónustar EYK ásamt verktöku og ráðgjöf í gagnavinnslu.

Elvar Örn Þormar, framkvæmdastjóri Reon, segir kaupin styrkja bæði félögin þar sem Reon fái aðgang að þekkingu Hugfimi við flókna gagnavinnslu og framsetningu og Hugfimi fái aðgang að þróunarteymum Reon sem gerir félaginu kleift að taka að sér stærri verkefni og setja meiri kraft í þróun á EYK. Elvar segir kaupin einnig vera lið í stefnu Reon að setja meiri kraft í eigin vöruþróun en fyrir á félagið og rekur tvær aðrar hugbúnaðarvörur, Vefáskrift og TeamHealth.

„Hugfimi er gríðarlega spennandi fyrirtæki með mikla vaxtarmöguleika og þá sérstaklega erlendis. Við teljum að með aðkomu Reon að félaginu og auknum krafti í vöruþróun þess sé hægt að byggja á allri þeirri góðu vinnu sem hefur farið í félagið undanfarin ár og efla markaðssókn til muna,” segir Elvar. “Reon hefur gríðarlega öflugt og breytt þekkingarnet á sviði stafrænnar vöruþróunar og sölu á stafrænum vörum. Sú þekking mun koma að góðum notum á komandi misserum og ætlum við okkur stóra hluti með Hugfimi og EYK.”

Bjarki Ásbjarnarson, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum Hugfimi segir að kaupin færi mikil tækifæri fyrir Hugfimi.

„Það er ómetanlegt að fá aðgengi að þeirri reynslu og þekkingu sem Reon býr yfir. Við í Hugfimi lítum á þetta sem mikinn liðsauka og sjáum fram á að geta aukið vöruframboð og bætt okkar þjónustu í kjölfarið.

Okkar sérsvið er að gera gagn úr gögnum og með þessari sölu getum við gert enn meira gagn úr þeim gögnum sem okkur er treyst fyrir.

Við þökkum Mannviti innilega fyrir stuðninginn og traustið sem þau hafa veitt okkur. Það er ákaflega mikilvægt fyrir nýsköpun í okkar geira að geta gengið að jafn framsæknum og víðsýnum fyrirtækjum og Mannvit."

„Mannvit hefur lagt áherslu á nýsköpun á sviði tækninýjunga og fjárfest í verkefnum til aðstoða frumkvöðla eins og Hugfimi við að gera hugmynd að veruleika. Nú er Hugfimi búið að slíta barnsskónum og nýir hluthafar komnir til að styðja við frekari vöxt félagsins. Við afhendum keflið með stolti til Reon, sem er afar sterkur bakhjarl á sviði hugbúnaðarþróunar og mun gera Hugfimi kleift að vaxa og dafna enn frekar,“ segir Örn Guðmundsson, forstjóri Mannvits.