Borgarlínan - Mannvit.is
Frétt - 12.09.2019

Samgöngulíkan fyrir höfuðborgarsvæðið

Mannvit í samstarfi við Cowi var hlutskarpast í útboði Vegagerðarinnar á gerð nýs samgöngulíkans fyrir höfuðborgarsvæðið en nýverið var skrifað undir samning þess efnis. Um er að ræða uppbyggingu á fjölferðamáta samgöngulíkani ásamt skýrslu sem inniheldur nákvæmar lýsingar á virkni líkansins. Með samstarfi Mannvits og Cowi er myndaður hópur sérfræðinga með mikla þekkingu og reynslu fyrir verkefnið. Vinna hefst strax og verður lokið í febrúar og verkefnisstjóri fyrir hönd Mannvits er Albert Skarphéðinsson. Verkefnið er samvinnuverkefni Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Hjá Vegagerðinni hefur verið stofnuð verkefnisskrifstofa fyrir Borgarlínuverkefnið og var þetta fyrsta útboð þess hóps.

Í útboðslýsingunni kom fram að höfuðborgarsvæðið mun á næstu árum fara í gegnum miklar umbreytingar í samgönguinnviðum með tilkomu Borgarlínu. Ísland hefur skuldbundið sig til að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2030 til þess að geta náð markmiði um kolefnishlutleysi árið 2040. Til þess að þetta geti orðið að veruleika þarf að draga verulega úr útblæstri frá vegasamgöngum á höfuðborgarsvæðinu meðal annars með því að auka uppbyggingu á innviðum fyrir hjólandi, gangandi og  almenningssamgöngur. Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins miðar að því að þétta byggð nálægt Borgarlínustöðvum á næstu árum sem mun auðvelda íbúum að ferðast styttra og með fjölbreyttari hætti en í dag. Tilkoma samhæfðrar ferðamátaþjónustu (e. Mobility as a service) er einnig að ryðja sér til rúms og jafnframt er ráð fyrir að sjálfkeyrandi tækni geti haft töluverð áhrif á samgöngur á næstu áratugum. Þannig má gera ráð fyrir að verulegar breytingar séu framundan hvað varðar ferðamynstur íbúa.

Framundan er því aukin þörf á verkfæri til að greina og meta áhrif þessara breytinga. Í raun má segja að allar stærri ákvarðanir sem framundan eru á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar samgöngu- og skipulagsmál þurfa að uppfylla loftslagsmarkmiðin. Til að það geti orðið þarf að meta áhrif af ákvörðunum ekki bara með tilliti til umferðarflæðis heldur einnig samspil ákvarðana við aðra ferðamáta og við loftslag og umhverfi.

Vegagerðin ásamt umhverfis- og skipulagssviðum sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins þurfa á hverjum degi að takast á við ýmis verkefni, bæði stór og smá. Þó svo að meginmarkmið þessa útboðs sé að geta metið áhrif Borgarlínu og breytingar á leiðarkerfi strætó skal einnig miða við að samgöngulíkanið geti aðstoðað Vegagerðina og sveitarfélögin við daglegan rekstur.