Borgarlínan - Mannvit.is
Frétt - 16.01.2018

Samgöngulausnir á höfuðborgarsvæðinu: Áskoranir framtíðar

Mannvit vann að kynningarefni fyrir Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við breytingu á Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sem nú er í kynningarferli. Í því er leitast við að útskýra á myndrænan hátt hvað Borgarlínan er, ásamt samspili samgangna og skipulags. Kynninguna má einnig nálgast á heimasíðu SSH: „Hvað er Borgarlína?“.

Mannvit hefur auk þess unnið nokkrar skýrslur undanfarin ár í tengslum við hágæðakerfi almenningssamganga á höfuðborgarsvæðinu með það að markmiði að auka skilvirkni í samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins, sem sjá má hér. 

Bílaeign Reykvíkinga er mikil í alþjóðlegum samanburði, sem endurspeglast í ferðamátavali en um 80% ferða á höfuðborgarsvæðinu eru með einkabíl. Til ársins 2040 er áætlað að um 70 þúsund manns bætist við íbúafjölda höfuðborgarsvæðisins með tilheyrandi áskorunum í byggðar- og samgönguskipulagi. Það er 35% aukning frá 2012, sem er grunnár umferðarspár sem unnin var við gerð svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins 2015-2040. Verði ferðavenjur áfram óbreyttar mun íbúafjölgun valda auknum töfum í umferðinni, þrátt fyrir miklar fjárfestingar í nýjum umferðarmannvirkjum. Þannig verði aukning í heildarakstri á höfuðborgarsvæðinu um 55% og aukning á heildar aksturstíma um 65%. Við lausn umferðarmála höfuðborgarkerfisins þarf að horfa til samspils fjölbreyttra lausna og afkastamiklar almenningssamgöngur gegna þar lykilhlutverki.