Lyngássvæði og Hafnarfjarðarvegur - Mannvit.is
Frétt - 29.06.2016

Samkeppni um rammaskipulag í Garðabæ

Mannvit er hluti af teymi sem hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um Rammaskipulag fyrir Lyngássvæði og Hafnarfjarðarveg í Garðabæ. Að vinningstillögunni standa Batteríið, Landslag og Mannvit. Úrslitin voru tilkynnt í Garðabæ þann 28.júní og um leið opnuð sýning á öllum innsendum tillögum sem voru 11 talsins. Sýningin er að Garðatorgi 7 og verður opin til 15. júlí.

Þátttakendur Mannvits í verkefninu voru Ólöf Kristjánsdóttir samgönguverkfræðingur, Albert Skarphéðinsson samgönguverkfræðingur, Vilhjálmur Hilmarsson hagfræðingur og Bjarni Rúnar Ingvarsson samgönguverkfræðingur. Þátttakendur frá Batteríinu voru Sigurður Einarsson, Jóhanna Helgadóttir og Bergdís Bjarnadóttir og frá Landslagi Þráinn Hauksson, Gísli Rafn Guðmundsson og Jón Rafnar Benjamínsson.

Í umsögn dómnefndar um vinningstillöguna segir m.a.:
„Tillagan byggir á sterkri heildarsýn sem hnýtir saman Lyngássvæðið, Hraunholtsslæk og Hafnarfjarðarveg á sannfærandi hátt. Höfundar gera ráð fyrir stokkalausn allt frá Litlatúni suður að Hraunsholti og skapa um leið góða götumynd við Hafnarfjarðarveg. Við miðsvæðið er vel útfært torg með tjarnarsvæði mótað af Hraunsholtslæk. Þar er einnig gert ráð fyrir blandaðri byggð, samgöngumiðstöð og bílastæðakjallara sem hægt er að samnýta Ásgarði á álagstímum. […]

Tillaga að nýrri aðkomu að Grundum gefur Hraunsholtslæk aukið vægi þar sem lækjarsvæðið myndar óslitinn grænan ás niður að Sjálandi með opnum tengingum við íbúðabyggð Lyngássvæðis. Íbúðabyggðin skartar fjölbreyttum húsaþyrpingum með skjólgóðum og sólríkum innigörðum auk góðra vegtenginga sem auðveldar umferðarflæði um hverfið og tengir vel við aðliggjandi byggð. […]
Umferðar- og götutengingar, útfærsla grænna svæða og byggð við Hafnarfjarðarveg eru sérstaklega vel leyst í tillögunni.“

Markmið bæjarstjórnar Garðabæjar með samkeppninni er að móta stefnu um byggð á svæðinu og vinna raunhæfa áætlun um uppbyggingu. Lögð er áhersla á spennandi íbúðarbyggð sem hentar ungu fjölskyldufólki í hæfilegri blöndu við verslun, þjónustu og skrifstofubyggingar. Einnig á góð tengsl við samgönguæðar, útivist og þjónustu. Leitast verði við að styrkja tengsl miðbæjar við svæðið við Hafnarfjarðarveg og norðan hans. Stefnt er að því að svæðið verði skilgreint sem þróunarsvæði til 15 ára í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Í kjölfar rammaskipulags verður deiliskipulag unnið í áföngum á grundvelli uppbyggingaráætlunar.