Samningur um hönnun kísilverksmiðju - Mannvit.is
Frétt - 10.01.2014

Samningur um hönnun kísilverksmiðju

Thorsil ehf. og Mannvit hf. skrifuðu í dag undir samning um hönnun kísilmálmverksmiðju Thorsil sem rísa mun í Helguvík. Samningurinn felur í sér að Mannvit mun, ásamt norsku verkfræðistofunni Norconsult AS, hafa umsjón með hönnun, útboðum og byggingu verksmiðjunnar. Verðmæti þessa fyrsta áfanga samningsins er 508 milljónir króna. 

 

Thorsil lauk í desember s.l. hlutafjáraukningu vegna þessa næsta áfanga verkefnisins en félagið er alfarið í eigu innlendra aðila. Arctica Finance hf. er ráðgjafi félagsins og hafði umsjón með fjármögnuninni.

 

Thorsil og Reykjanesbær skrifuðu í október sl. undir samning um skilmála vegna 16 hektara lóðar undir verksmiðjuna sem Thorsil hyggst reisa á iðnaðar- og hafnarsvæðinu í Helguvík. Vinna við umhverfismat stendur yfir og áætlað er að byggingarframkvæmdir hefjist síðar á þessu ári.


Rúmlega 300 manns munu starfa við byggingu verksmiðjunnar og er stefnt að því að framleiðsla hefjist á þriðja ársfjórðungi ársins 2016. Þá skapast um 160 ný störf vegna starfseminnar auk afleiddra starfa, s.s. við flutninga, viðhald, verkfræðiþjónustu og fleira. Áætluð ársframleiðsla er um 54 þúsund tonn af kísilmálmi.

 

Samkomulag um skilmála hefur verið gert við Landsvirkjun um kaup á 87 MW af raforku en gert er ráð fyrir að orkuþörf fyrirtækisins verði um 730 GWst á ári. Langtímasamningar um sölu á rúmlega helmingi af framleiðslu verksmiðjunnar til rótgróinna alþjóðlegra framleiðslufyrirtækja eru á lokastigi.