Hjúkrunarheimili á Egilsstöðum - Mannvit.is
Frétt - 17.01.2013

Samningur vegna byggingar hjúkrunarheimilis á Egilsstöðum

Föstudaginn 11. janúar 2013 undirrituðu Björn Ingimarsson bæjarstjóri og Skarphéðinn Smári Þórhallsson, framkvæmdastjóri starfsstöðvar Mannvits á Egilsstöðum, verksamning um byggingastjórnun og eftirlit vegna byggingar hjúkrunarheimilis á Egilsstöðum.


Gengið var til samninga við Mannvit að undangenginni verðkönnun á meðal verk- og tæknifræðistofa í sveitarfélaginu. Reiknað er með að verktími framkvæmda muni geta staðið til loka árs 2014. Um er að ræða nýbyggingu hjúkrunarheimilis á Egilsstöðum með 40 hjúkrunarrýmum sem mun rísa í tengslum við byggingar Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Stærð hjúkrunarheimilisins verður um 3000 m2 og mun leysa plássleysi og bæta þjónustu við aldraða. Byggingin er hönnuð í samræmi við viðmið velferðarráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila þar sem áhersla er lögð á heimilislegt yfirbragð í litlum hjúkrunareiningum með góðu einbýli fyrir hvern og einn auk sameiginlegs rýmis fyrir íbúa og starfsfólk með eldunaraðstöðu, borðstofu og dagstofu.